Harmsögur ævi minnar

31.3.03

Þetta er bara eins og heima hjá mér. Ég að dansa með jólaseríuna og Tobbalicious fylgist spenntur með.

Fékk stúdentablaðið í gær. Það var leiðinlegt eins og venjulega. Það rétt bjargaði því að það voru myndir af tveimur sætum skiptinemum; Svía og Finna minnir mig.

Það var samt ekki eins leiðinlegt og Garðatíðindi eða hvurn andskotann sem það hét. Blaðið fyrir íbúa Stúdentagarðanna. Jú jú það er sjálfsagt gagnlegt til að koma upplýsingum og svoleiðis á framfæri. Sagan um mömmumorgnana var þó algjör óþarfi, bláfátækar námsmömmur sem hittast vikulega og búa til skonsur úr gömlum hafragraut.

Þó að eitthvað af þessu liði kunni ekki að fara með peninga og hafi það slæmt er óþarfi að vera að bögga okkur hin með svona hryllingssögum.

Heyrðu ég er búin að skoða nokkur ókunnug blogg og það eru geðveikt margir með sama template og ég! Fúlt. En þetta er náttúrulega geðveikt template.

Mér finnst ekki skemmtilegt lagið sem gellan vann með í söngkeppni menntaskólanna. E-r r'n'b útgáfa af vísum Vatnsenda-Rósu. Hrmpfff.

Svo vil ég benda þeim á sem vilja létta sér mánudaginn að ná sér í síðasta hefti af "Orðlaus" (fæst alls staðar ókeypis) og lesa grein eftir þrjár ungar stúlkur um það hvort það skipti máli hvernig þær eru klæddar þegar þær fara út að skemmta sér. Þetta er svo botnlaus snilld að það er ótrúlegt. Ég hélt að svona fólk væri bara til í bandarískum unglingamyndum. Ég varð a.m.k. alveg orðlaus. Ha ha ha.

Og ef þú vilt fara í bíó sjáðu þá Adaptation....og ekki seinna en í kvöld.

30.3.03

Það var líka geðveikt gaman í fermingarveislunni og hrikalega góður matur. Ég og Tobbalicious vorum svo dugleg að borða að við fengum franska súkkulaðiköku með okkur heim í verðlaun.
Ég þyrfti bara að kaupa rjóma til að éta með henni en nenni því ekki því veðrið er fokking truflað. Ég skil bara ekki hvað gengur á. Það er búið að vera vor í allan vetur og loksins þegar það á að koma vor verður allt snælduvitlaust.

Ég hef tapað baráttunni við sambýlismanninn - sjónvarpið hefur verið sótt.

Í þrjá mánuði hef ég barist fyrir sjónvarpslausri tilveru og haft erindi sem erfiði þangað til í dag. Ég neyddist eiginlega til að láta undan, enda sambýlismaðurinn orðinn afar pirraður á þessu öllu saman - vill fara að horfa á formúlu og þýska boltann og svona.

Það verður þá bara ekkert lært. Ég sem er búin að vera svo löt og þyrfti einmitt að fara að kíkja í bækurnar.

Jæja gotta go, það er að byrja According to Jim, á eftir því Yes Dear, svo kemur Will & Grace og svo uppáhaldið mitt the Practice og því næst Abre los ojos. Sjáumst í sumar.

29.3.03

Jo-vicious og Spörri kíktu annars í gær. Það var aðeins súpt á rauðu, hvítu og bjór og mikið gaman.

Ég og Jo notuðum aldeilis tækifærið til að spjalla enda smurði allt þetta vín rækilega málbein okkar beggja. Tobbalicious og Spörri sátu í sófanum og töluðu um megabæt, módem og brjóst og svona.

En svo þegar þeir voru búnir að tala um þetta rugl allt þá vildu þeir vera með okkur að tala. En við vildum ekkert hafa þá með í því sem við vorum að tala um. Karlmenn eru greinilega svo félagslega fatlaðir að þeir geta ekki talað við aðra karlmenn um persónuleg mál. Þeir geta bara talað um bíla, klám og fótbolta. Og þegar það þrýtur þá sitja þeir bara og humma eitthvað. Við bentum þeim á að tala um sambönd sín og tilfinningar við hvorn annan. En nei. Frekar vildu þeir hlusta á túrsögur.

Og í ofanálag gat Spörri ekki hugsað sér að ganga í heilar tíu mínútur upp á Snorrabraut þannig að þau skötuhjúin enduðu bara á því að gista á svefnsófa dauðans. En þeim var auðvitað velkomið eyða nóttinni með okkur. Tobbalicious var svo ánægður með að hafa fólk hjá sér að hann stóð yfir þeim í alla nótt og horfði á þau sofa. Hann gæti hafa verið ber að neðan, ég man það samt ekki alveg.

Ferming á morgun!

Mmmm... ég er sko alls ekki ein af þeim sem finnst leiðinlegt að fara í fermingarveislur. Það er alltaf klikkað gott að éta og svo er fjölskyldan mín svo skemmtileg. Reyndar fannst mér mín eigin veisla ekkert æðisleg en það er nú bara af því að fermingarbarnið þarf alltaf að mingla við alla. Þegar maður er gestur getur maður fundið sér góðan stað og svo troðið sig út af mat og kökum án þess að nokkur taki eftir því.

Eini gallinn með morgundaginn er að af því að þetta er systir mín sem er að fermast þarf ég að fara í kirkjuna líka. Og ÞAÐ er sjitt leiðinlegt. Ég bauðst til að leggja lokahönd á salinn; klára að leggja á borð og svona meðan hin væru í messu en neeei, í kirkjuna skyldi ég fara. Til þess eins að horfa á 200 gelgjur tauta ritningargrein ofan í bringuna á sér í gegnum teinóttar tennur. Ég er að meina það - þessi athöfn tekur þrjá tíma. Að minnsta kosti.

Kannski get ég verið með vasadiskó.

27.3.03

Gleymdi alveg að segja frá myndatökunni.

Ég semsagt fór í myndatöku með systkinum mínum þar sem næstyngsta stykkið er að fara að fermast. Það gekk nú allt saman vel þannig séð, ég og eldri systir mín sátum voða penar á einhverjum stólum og hin stóðu við hliðina á okkur.
Svo stillti hann okkur upp þannig að við stóðum... OG ÞÁ LÉT HANN MIG STANDA Á UPPHÆKKUN!!!
Honum hefur greinilega fundist ég of lágvaxin miðað við hin systkinin (sem eru reyndar óðum að ná mér) og reddaði málunum svona.
Ég var nú næstum því móðguð og ætlaði að segja honum að ég væri nákvæmlega meðalhæð íslenskra kvenna! En ég vildi svo ekki eyðileggja daginn þar sem þegar hafði átt sér stað ósætti milli áðurnefnds fermingarbarns og móður þess í sambandi við hárgreiðsluna.

En þið getið hlegið núna; ég er greinilega dvergur.

26.3.03

Hélt fyrirlestur ásamt tveimur öðrum ungum stúlkum í dag og komst nokkuð skammlaust (held ég) frá mínum hluta: viðtengingarhætti og boðhætti í ítölsku. Það vantaði reyndar inn í glærurnar og svo missti ég pennann minn. En það er nú bara smotterí.

Þegar heim var komið var ég svo ánægð yfir því að vera búin með þetta að ég ákvað að þrífa klósettið. Fattaði svo þegar verknaðurinn var vel á veg kominn að í rauninni ætti ég aldrei að þurfa að þrífa þetta klósett heldur sambýlismaður minn, ástkær Tobbalicious.

Ástæðan er sú að pissusletturnar sem prýða setuna og leka niður með skálinni alla leið niður á gólf, geta ómögulega verið frá mér komnar. Ég hef bara ekki tól í það að pissa svona út fyrir. Hins vegar hef ég séð til sambýlismannsins þegar hann tappar af sér og get fullyrt að við þann verknað hefur maðurinn alls ekki góða stjórn á þessu verkfæri sem þó virkar vel við aðrar aðstæður.

Einu sinni ætlaði hann nú að gleðja mig blessaður með því að pissa sitjandi og subba þannig sem minnst út. En það er alveg ofboðslega ókarlmannleg athöfn að pissa sitjandi... og eiginlega bara hlægilegt. Þess vegna veit ég eiginlega ekki hvað er hægt að gera við þessu. Kannski verður maður bara að hafa klósettið skítugt. Alltaf.

Æi...þarf að halda fyrirlestur á eftir. Ég er sko ekki hrifin af því að tala fyrir framan ókunnugt fólk sem er allt að glápa á mann. Svo á ég örugglega eftir að snúa glærunum öfugt og svona.

Kannski maður kýli einum tvöföldum ofan í kokið á sér áður er maður byrjar...

25.3.03

Kíkið á þennan skratta!

Fór á Final destination 2 í gær og mæli með henni. Algjör snilld.
Annars neyðist ég víst til að fara í skólann á eftir en get sem betur fer farið fyrr heim út af þessari fermingarmyndatöku MÚHAHAHAHA!!!
Ég nenni annars ekki neinu núna. Ég vildi bara stundum vera heimavinnandi húsmóðir... þ.e.a.s. án barna og án þess að þurfa að þrífa og svoleiðis.

24.3.03

Eyddi gærdeginum í mikilli þynnku. Hefði nú svosem mátt vita það; drekk yfirleitt ekkert nema léttvín og Martini en slysaðist í gin og tónik á laugardagskvöldið. Eftir slatta af rauðvíni og Baileys.
En semsagt... reisti varla höfuð frá kodda nema til að kasta upp og gerði mikið af því. Hallast ég helst að því að uppköst séu verkfæri djöfulsins. Það er alveg merkilega andstyggilegur og óeðlilegur verknaður.
Þetta er samt svolítið sniðugt því við erum þá þrír vinirnir sem spúðum þessa helgina; ég, Tobbalicious og Óli. Ef fleiri hafa lent í því mega þeir alveg láta mig vita. Þá er nú greinilega eitthvað alheimssamsæri í gangi.

23.3.03

Jæja, vorum hjá fyrrverandi landlordi í mat í kvöld, þ.e.a.s. föður Deezu - og kannski tilvonandi tengdaföður Tobbaliciousar. Var þar snætt dýrindis lamb með frábæru meðlæti, rauðvíni og látum. Seinna - þegar menn voru komnir í gin og tónik urðu heitar umræður um Íraksstríðið, Kúbudeiluna og harðstjórn Talibana í Afganistan, að ógleymdum Bandaríkjamönnum og Frökkum.

A.m.k. varð niðurstaðan þessi:

Deeza og sambýlismaður hennar eru kommúnistar (að því er sumir segja).
E.R. elskar Donald Rumsfeld.
Frakkar eru hrokafullir kynvillingar.
George Bush þarf að deyja.
Stjórnmál á Íslandi eru hlægileg sandkassapólitík.


20.3.03

En svona til að hafa eitthvað jákvætt þá er tjaldurinn fyrr á ferðinni á Ísafirði en elstu menn muna. Það er nú ekki amalegt. Sigurður Jarlsson á Ísafirði sá einn tjald á steini við Steiniðjuna á fimmta tímanum í gær.

Frábært veður, friður í heiminum og gaman að lifa!

Nei bíddu...

19.3.03

Nú er sambýlismaðurinn á því að við eigum að sækja sjónvarpið okkar, svona með stríð yfirvofandi.
Og jú, það verður sjálfsagt frústrerandi að fylgjast með átökunum í gegnum Fréttablaðið þannig að líklega hefur hann eitthvað til síns máls. Það er nú ekki hægt að sitja bara í myrkrinu á átakatímum.

Sjáum til... kannski hætta Bandaríkjamenn við...

Við Eggertarnir vorum svo svangir að við pöntuðum okkur kínverskan mat. Það er kannski ekki það skynsamlegasta sem tveir fátækir námsmenn geta borðað but what the hey.
Carapelli extra-virgin ólífuolía, ekta parmigiano ostur og hráskinka eru kannski ekki heldur lífsnauðsynjar en við kaupum það samt.

Og ef það gerir okkur að slæmu fólki þá verður bara að hafa það. Við myndum bara drepast ef við þyrftum alltaf að borða skyr og ekki er það nú gott heldur.

Ég er bara alein heima. Sambýlismaður minn fór nefnilega til læknis. Við höldum að hann hafi náð sér í einhverja óværu í tunnunni um helgina. Þar fór peningurinn sem hann græddi fyrir lítið. Ja hérna...

18.3.03

Nú eru æsispennandi hlutir að gerast... ég ætla nefnilega kannski í skólann á morgun og þar með út úr húsi í fyrsta skipti síðan ég quantum-leapaði mig til læknis á föstudaginn síðastliðinn.

Ég veit ekki hvort líkami minn á eftir að þola þessi viðbrigði... ég er orðin svo sjúklega stressuð yfir þessum veikindum að ég þori ekki inn í forstofu að ná í póstinn af ótta við norðangarrann sem næðir inn um hálfopna bréfalúguna. Helst myndi ég vilja teipa fyrir allar rifur á húsinu, pakka mér inn í sæng og skríða upp í rúm með bók og tebolla. Þannig slær mér örugglega ekki niður.

Já... það má eiginlega segja að ég sé orðin fangi geðveiki minnar.

Þá eru allir búnir að taka próf um það hvaða karakter úr Will & Grace þeir séu og flestir eru tíkin Karen nema Friðsemd, hún var Grace. Prófin heita eitthvað "find your gay personality punktur kom" en hvorki Karen né Grace er gay svo þetta er augljóslega bara bull.

Svo er spurning: Hvað gerir hún Birgitta Haukdal ekki? Hún er nú meiri stelpan. Alltaf uppi á fjöllum í rafting og svona... að borða Rís súkkulaði eins og allir sem fara í fjallaferðir. Og svo hakkar hún í sig Doritos flögur og skolar ófögnuðinum niður með ííísköldu Pepsí. Og syngur í Júróvisjón. Og er í hljómsveit. Og á skítamóralsstrák fyrir kærasta. Og er þetta líka sólarstrandabrún allan ársins hring.

Þetta er ekki mannlegt andskotinn hafi það...

17.3.03

Þá sér nú loksins fyrir endann á þessum bévítans veikindum. Blessuð fúkkalyfin segi ég nú bara. Það eina góða sem hefur komið út úr þessum viðbjóði að ég ætti ekki að þurfa að verða veik fyrr en í fyrsta lagi 2017. Ég er sko búin að taka út minn skerf. En ég ætla nú ekki að hrósa happi of snemma... vona bara það besta.

Annars var ég að spá í dálítið í dag. Hafið þið ekki hitt fólk sem drekkur ekki áfengi (og þá meina ég fólk sem hefur aldrei drukkið áfengi - ekki þá sem hafa hætt því af einhverjum ástæðum) og spurt það af hverju það drekki ekki og það svarar þá: "Ég er bara svo klikkuð/klikkaður fyrir að ég þarf ekkert að drekka! Geturðu ímyndað þér hvernig ég væri ef ég væri full/ur!!!"

Af hverju heldur þetta fólk að það verði snælduvitlaust þó það fái sér í glas? Ég skil þetta ekki... það er alveg hægt að finnast áfengi vont eða hafa bara ekki áhuga á því að drekka eða eitthvað svoleiðis en þetta er eitthvað svo asnalegt... að halda bara að maður FRÍKI ÚT af því að drekka einn bjór!!!

15.3.03

Nú er sko kominn tími til að hrista af sér allt veikindaslen því 11. apríl í Laugardalshöllinni spila...

SCOOTER!!!!!!

Þvílík himnasending fyrir okkur reif-fíklana. Nú er um að gera að finna gömlu e-pillurnar, neonlituðu útileguljósin og flippuðu Ibiza-sólgleraugun.
Svo vil ég mana þá sem þora að skoða linkinn hérna fyrir ofan... hann er ROSALEGUR.

14.3.03

Bronkítis á byrjunarstigi. Það var nú gaman... fékk pensillín og allt. Jæja, betra en krabbamein. Já eða bara lungnabólga. Þetta er ekki svo slæmt.

Ennþá hiti og leiðindi. Beinverkirnir hurfu reyndar eftir að ég byrjaði að bryðja parkódín í gríð og erg. Ætli ég sé ekki bara dauðvona?

Annars er sambýlismaður minn ósköp sætur í sér og duglegur að búa til alls konar seyði sem styrkja kroppinn. Hann kokkaði upp í gær einhvern ógurlegan lífselixír með sítrónu, ferskri engiferrót og sérinnfluttu hunangi.

Svo ætlar mamma með mig til læknis í dag. Það er ekki seinna vænna.

13.3.03

Var búin að afpanta stelpuna sem átti að vinna fyrir mig á morgun en það þurfti að endurpanta hana fyrir alla helgina því ég er ennþá veik. Og komin með hærri hita og meiri beinverki! Ég skil þetta ekki... Farin að sofa þetta úr mér. Kærasti kemur heim á eftir með parkódín. Góða nótt.

12.3.03

Jóhanna kom með Séð og Heyrt til okkar í hádeginu. Þvílík veisla! Vissuð þið að Kolla í Djúpu lauginni er hætt með kærastanum sínum? Uss uss uss, þetta nær náttúrulega ekki nokkurri átt.
Svo var e-ð Jóhannes í Bónus bla bla bla eins og venjulega, að ógleymdum Fjölni Þorgeirs, uppáhalds tengdasyni Bretlands. Hann býr bara í sveitinni og keypti sér hvorki meira né minna en TÍU HÆNUR! HA HA HA - Hann Fjölnir er svo flippaður!
Aaaahh....

Kannski þarf að fresta myndatökunni - fermingarbarnið er víst fárveikt. Og ég búin að fá frí í vinnunni! Sveiattan.

11.3.03

Ég er búin að taka mér frí í vinnunni á föstudaginn til að fara í myndatöku á ljósmyndastofu. Og nú veit ég alveg hvað þið haldið... Loksins fær Deeza sitt tækifæri í tískuheiminum eins og hún á skilið! Við vissum öll að það myndi gerast!

En neibbs, glanstímaritin þurfa að bíða enn um sinn því hér er ég að tala um fermingarmyndatöku systur minnar. Það þarf nefnilega alltaf að taka nokkrar fjölskyldumyndir líka. Ef hægt er að tala um fjölskyldu... núna eru mamma og pabbi ekki lengur gift þannig að þetta verður sennilega bara mynd af fjórum systkinum og foreldrum þeirra.
Jamm.
En það breytir því ekki að það er alltaf einhver einn eins og hálfviti á þessum myndum. Oft ég en líka aðrir. Það er bara svo óendanlega asnalegt að brosa svona "BROSA" - brosi. Manni líður eins og bjána og veit að það sést. Ojjjj.... kreistandi upp úr sér gervihlátur á ljósmyndastofu - ég sé alveg fyrir mér hvað þetta verður glatað.

Nenni ekki að mæla mig ef ég skyldi ennþá vera með hita. Það er ekki til neins þar sem ég þarf hvort sem er að fara í skólann, veikindi eður ei.

Fékk mér kanilte áðan til að mýkja hálsinn og losna við óvelkomið slím úr öndunarvegi. Teið var reyndar upphaflega ávaxtate en síðan Jóhanna hitaði kanilsnúða í örbylgjuofninum um daginn bragðast allt sem úr honum kemur eins og kanil-eitthvað. Sem er ágætt, mér finnst kanilbragð gott.

Kannski ég vaski svo upp áður en leirtauið skríður sjálft út í ruslageymslu.

10.3.03

Svo var Guffi að segja mér að maður mætti ekki gefa blóð í tvær vikur eftir að maður er veikur! Aaaargh! Ég sem ætlaði á fimmtudaginn. En Guffi sagði sko að þá gæti eitthvað lasið grey fengið veika blóðið úr mér og bara dáið.
Og þá kærir Blóðbankinn mig kannski fyrir að ljúga að ég hafi ekkert verið lasin! En það er samt ekki eins slæmt og ef langveikur einstaklingur deyr af mínum völdum. Það er rosalega ljótt.

Ákvað að láta rúmenska greininn eiga sig í dag. Ætla bara að liggja uppi í sófa með tölvuna og sjúga upp í nefið og drekka heilsute.
Er búin að taka þrisvar upp tólið á símanum til að athuga hvort hann virki ekki örugglega. Og jú jú það kemur alveg sónn, það bara hringir greinilega enginn. Eða kemur. Það kemur enginn lengur.

Ég vil bjóða alla velkomna á síðuna mína sem er með nýju og glæsilegu útliti. Já maður er að verða nokkuð sleipur í þessu...

Svo ætla ég að biðja ykkur að senda mér góða strauma svo ég hætti að vera veik.
Ég er í sjálfskipuðu veikindafríi frá skóla en neyðist til að fara uppeftir á eftir og hlusta á fyrirlestur um óákveðinn og ákveðinn greini í rúmensku. Ef ég verð heppin dett ég og fótbrýt mig á leiðinni og þarf ekki að mæta.

Að lokum vil ég mæla með barbecue-borgaranum á T.G.I.-Friday's. Það er þokkalega sveitt kvikindi, með laukhringjum og öllum fjandanum. Reddaði veikindahelginni hjá mér og gerði mig glaða.
Og ég fékk líka kokkteilsósu með frönskunum.

9.3.03

Djöfulsins ógeðs kvefpest er þetta!!! Fékk boð um falskan bata því þetta er hreint ekkert horfið.
Búin að bryðja öll heimsins vítamín og er ennþá með beinverki, hausverk, massastíflað nef og hálsbólgu.
Mér tókst samt að kíkja í átta-bíó á laugardagskvöldið og sá Punch Drunk Love eftir P.T.A. og er það nú meiri snilldin maður. Ekkert meira um það að segja. Allir í bíó.

8.3.03

Komin heim af djamminu klukkan hálf þrjú. En sorglegt.

5.3.03

Ég held bara að hin illa lyktandi ólívulauf séu að svínvirka. Við erum öll að koma til og farin að éta beikon og ís af miklum móð.

Svo er ég næstum því búin með Erasmus umsóknina mína. Þetta er allt að koma.
Nú er bara að fara að læra fyrir þessi blessuðu próf og þá er maður í góðum málum.

Er ekki sambýlismaðurinn búinn að vera reyklaus í allan dag og orðinn heldur pirraður fyrir minn smekk!

Dæmi:
Deeza: "Ástin mín, ertu búinn að lesa Fréttablaðið?"
Tobbalicious: "Á ég að drepa þig helvítis h***n þín??!!"

Af hverju...

þarf maður alltaf að vera á síðustu stundu með allt? Allar ritgerðir og heimaverkefni skulu alltaf unnin nóttina fyrir skiladag. Nú ætti ég að vera að klára Erasmus-umsóknina mína ef ég ætla til útlanda næsta vetur. En af því að skilafrestur er til 15. mars er ég sallaróleg yfir þessu.
Kannski ég geri þetta á eftir. Kannski ekki. Við sjáum til. Mig langar nefnilega til útlanda, ég nenni bara ekki að standa í veseni!

4.3.03

Í sárri fátækt minni eyddi ég þúsundkalli í lýsi og vítamín, og fimmhundruðkalli í einhver konsentreruð ólívulauf í hylkjum. Mamma lofaði að þau myndu hrekja veikindi okkar skötuhjúanna á brott; hún var sko hjá svona grasagúrúi. Bölvaðir skottulæknar örugglega, but it's worth a shot.

Ég gerði líka kjarakaup í Elko og keypti þennan fína silfurlitaða heimilissíma á 995.-. Ég á bara eftir að stinga honum í samband og athuga hvort hann virki.
Sennilega ekki.

Er þá ekki sambýlismaður minn búinn að smita mig af einhverju ógeði. Og þá er ég ekki að tala um neinn kynsjúkdóm, nei nei nei, heldur svona beinverkja- og sljóleika kvefpest. Það er súrt í broti, það er sko enginn tími til að vera veikur núna í svona góðu veðri og prófin að nálgast.

Annars er ég búin að rekja uppruna pestarinnar til litlu systur Jo-vicious-ar, en við hittum þær báðar á laugardaginn. Litla systirin vinnur á leikskóla og ber þ.a.l. með sér alla vírusa bæjarins hvert sem hún fer. Ógeðslegt. Fólk sem vinnur á leikskóla á að vera í sóttkví þegar það er ekki að vinna.

Já líka þú Bedda.

3.3.03

Undur og stórmerki!!!

Ég tók upp skólabækur og lærði! Ekki mikið en samt...
Hvað næst? Vinningur í Happdrætti Háskólans?

Vá þetta dýrindis veður er alveg að bjarga geðheilsunni hjá mér. Fór í bakarí og keypti bollur og er núna að viðra sængur og hlusta á fuglasöng. Ég veit svosem að þessu hamingjuskeiði lýkur um leið og Visareikningurinn kemur inn um lúguna. En þangað til....

2.3.03

Þið eruð nú fúl, Friðsemd var sú eina sem sagði mér í hvaða blóðflokki hún er!

Anyway, ég ætla í tvö bollukaffi í dag, þó að bolludagur sér ekki fyrr en á morgun. Mmmmmmm..... vonandi er búið að þeyta nóg af rjóma. Svo verður maður eiginlega að kaupa sér sveitta bakarísbollu á morgun. Þær eru svo stórar og yummy. Svo er rjóminn bragðbættur með einhverju gúmmulaði. Arg.