Harmsögur ævi minnar

28.12.05

Úúúú, er búin að vera allt of upptekin við að éta og hef alveg gleymt að blogga. Sumt man ég heldur ekkert, en hér er eitthvað af því sem er búið að gerast: bjór, mirto, sambrýnda vonda barnið úr Simpsons, spil, jólasloppur, dómarabúningur, gat á gallabuxur og sár á hné. Og svo er byrjað að leka vatn úr þakinu á bílnum mínum, sem er slæmt.

22.12.05

Kláraði alla pakka í dag. Það var ekki mikið mál enda fá allir ruslgjafir. Nei djók.

Sorglegt frá því að segja að ég er eiginlega ekkert í jólaskapi lengur. Ég kláraði það í nóvember held ég. Nú er bara að þrífa á morgun og skata og svo jól. Hlakka eiginlega mest til að borða góðan mat. Af hverju er bara ekki hægt að halda jólin í nóvember svo jólaskapið fari ekki til spillis? Kannski ég hlusti bara á Deep Purple og drekki bjór yfir hátíðarnar. Á skítugum nærbol.

Heyrðu... það kom svo bara ekki einn einasti kennari í lokapartýið. Það kom þó ekki í veg fyrir mikil ævintýri hjá mér og Bylgju beikoni. Stuð stuð stuð.

21.12.05

Búúúúin. Ætla að kíkja á eitthvað bjórpróflokakvöld hjá enskunni. Svona til að vera ekki algjör félagsskítur... hef ekki nennt að mæta á eitt einasta geim enda þekki ég bara tvær manneskjur í deildinni. Svona er lífið. Það verður nú nokkuð ljúft að renna niður eins og tveimur ísköldum... spurning að slumma nokkra kennara til að tryggja það að maður nái öllu, já er það ekki bara málið?

20.12.05

Ætli Jessica Simpson sé í alvörunni svona heimsk eða er þetta kannski fiffað svo fólk nenni að horfa á Newlyweds? Svei mér þá, hún er alveg rosaleg. Og ógeðslega fúl og leiðinleg í ofanálag. Ekki furða að Nick greyið hafi tekið til fótanna. Er platan hans annars komin út?

19.12.05

Þá er þetta alveg að verða búið, ég nenni ekki meir og er dauðfegin að hafa ákveðið að hætta eftir áramót. Hver þarf svosem eitthvað heimskulegt BA próf?

Bara þrjár og hálf jólagjöf eftir. Og ég pakka öllu inn ókeypis í Smáralind. Þá vitið þið það og þurfið ekki að hneykslast á plebbaskapnum í mér á sjálft aðfangadagskvöld. Og heimagerðir gullfallegir merkimiðar. Ég þarf nefnilega að kaupa mér skó og maskara og púður. Spennan er í hámarki!

17.12.05

Æi, ég er svo þreyttur. Vona að mér takist að halda mér vakandi fram yfir próf. Svo er niðurlögn eftir það. Geeeeisp. Síðasta próf er svo á miðvikudaginn. Ég ætla sko ekki að snerta bók fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn.

Djöfulsins andskotans helvítis helvíti. Ég er svo fokkt fokkt fokkt. Ég vil mæta þeim aðila í dimmu húsasundi sem bjó til prógrammið fyrir breskar bókmenntir II. Sá mætti taka til fótanna. Alveg aldeilis ómögulegt að fara yfir þetta. Ómögulegt. Þetta er allt allt allt of mikið. Og þó tók ég helminginn í miðsvetrarprófi. Ég er mjög óhamingjusöm þessa stundina.

Og andlitið á mér er eins og fokking bílslys þar sem ég er búin að eyða síðusta klukkutímanum í að kreista bólur og fílapensla í staðinn fyrir að læra. Og ég er búin að éta allt of mikið sælgæti og er illt í maganum.

Bless grimmi heimur,
Tossa-Deeza

P.s. Gullfallegur áramótakjóll til sölu. Mjög stuttur og með blúndubaki (smá glimmer í blúndunni). Passar ekki á fituhlunka, letingja eða tossa. Skipti möguleg á strigasekk eða múmú-i.

16.12.05

Ég lít orðið hræðilega út. Baugarnir á mér eru komnir með bauga. Ég er samt alltaf með nýja varalitinn á mér. Próf á morgun, helvítis bókmenntir dauðans.

Doktorinn létti talsvert lund mína með mynd sem hún setti á bloggið sitt. Það var gríðarlega mikil stemmning í þessari teiti sem var einmitt hin árlega afmælis-karókí-jólaveisla jólabarnsins Tobbaliciousar. Ég er nú ekki frá því að fólk hafi verið búið að fá sér aðeins í aðra tána.

Já dæææææs. Best að fá sér kaffi (og það eru allir bollar og öll glös ógeðsleg, með rauðum varalit á kantinum, held ég verði að fá mér uppþvottavél ef þetta á að ganga).

15.12.05

Oft hef ég litla tilfinningu fyrir því hvernig mér gengur í prófum. Í dag á ég ekki við slíkt vandamál að stríða; mér gekk vægast sagt hörmulega. Ég man ekki eftir því að hafa áður giskað á 80% svara í einu prófi. Eins gott að þeir fari að merkja mér slopp í frystihúsinu.

Var að plokka kolsvart, þykkt og stutt hár efst úr enninnu á mér. Það gat nú verið að það færu að vaxa skapahár í andlitinu á mér í miðjum prófum. Þetta er nú ekki á mann leggjandi.

14.12.05

Mér líst ekki á blikuna. Er að fara í próf í fyrramálið og ætti að öllu jöfnu að vera byrjuð að æla og skíta blóði af stressi. En ég er alveg gríðarlega afslöppuð. Þetta veldur mér nokkrum áhyggjum því yfirleitt er ég stressaðri eftir því sem ég les meira. Ég neyðist þess vegna til að sætta mig við það að líklega er ég illa undirbúin. Rólegheit dauðans og sjónvarpsgláp á Eggertsgötunni.

Kannski er það vegna þess að hin illa undirmeðvitund mín kokkaði upp áætlun B þar sem ég lá nær dauða en lífi í kvefpest og hita í gær. Ó já. Ef mér gengur illa í þessum prófum þá ætla ég nefnilega bara að hætta í háskólanum. Ég get ekki beðið eftir að komast eitthvert í frystihús að sortéra loðnu. Ég er hvort sem er svo óakademísk og ógagnrýnin í hugsun.

Aaaah, það er svo þungu fargi af mér létt að þurfa ekki að standa í þessum leiðindalestri áfram.

13.12.05

Oj, er að baksa við eitthvað heimapróf í fornensku. Það á væntanlega eftir að taka allan tímann fram að prófi þannig að eins gott að prófið sjálft verði nákvæmlega eins.

Er að þýða kafla núna:
Ðá wæs ymb féower hund wintra and seofone æfter Drihtnes menniscnysse. Féng tó ríce Honorius cásere, sé wæs féorða éac féowertígum fram Agusto þám cásere, twæm géarum ær Romaburh ábrocen and ferhergod wære.

Þetta skilst mér að sé:
Þá voru manneskjurnar imbar og færri veturgamlir hundar og sjófánar eftir á Dritnesi. Fékk þá hrísgrjón Hörður keisari, sem var fjárráða og einnig fjaðurteygjur frá Gústa þeim keisara, tveimur árum eftir að Rómarborg afbrotin og fjörgóð var.

Annars vantar mig eiginlega Beddu í verkið með mér, við vorum nú nokkuð klókar við latínuþýðingarnar í menntaskóla.

Og nú er ég lasin í ofanálag. That's just great.

11.12.05

Ha ha ha, hverju tekur maður ekki uppá þegar maður er í prófum? Var að strauja rúmfötin mín. Ég hef ekki snert straujárn í mörg ár. Sei sei.

8.12.05

Er í miklu óstuði og tilhugsunin um að ég þurfi nauðsynlega núna að fara að læra er að drepa mig. Allt ómögulegt og hundfúlt. Sem betur fer keypti ég fallegasta varalit í heimi í dag. Það dugar til að kæta mig í nokkra daga. Verst að hann er eldrauður og því ekki notanlegur dags daglega. En það er ekkert sem segir að maður megi ekki vera varalitaður heima hjá sér. Í náttfötunum. Alltaf smart, alltaf.

Vonbrigði dagsins eru þau að háhæluðu silfurbandaskórnir sem ég sá í Topshop eru bara til í 39. Af hverju fæddist ég ekki með stærri fætur, af hverju guð?! Sá aðra fallega hælaskó í Zöru en þeir eru sjúklega háir. Sé fram á edrú gamlárskvöld ef ég kaupi þá og það er alveg bannað. Nema ég láti mig bara hafa það, hvað er eitt fótbrot milli vina? Ég hef nú meiri áhyggjur af því að gera eitthvað ennþá neyðarlegra, eins og að reyna við eitthvað skylt mér. Fridzy, þú kannski hendir mér inn í herbergi ef það stefnir í eitthvað svoleiðis? Nema þú verðir sú heppna ha?

Og er búin að finna líkamsræktina mína. Fyrst ég nenni ekki í venjulega leikfimi hef ég tekið upp á því að húlla eins og vindurinn meðan ég horfi á Sex and the City. Eða a.m.k. í gær, sjáum til hvort það endist. Ég verð eins og fokking rúllupylsa í áramótakjólnum ef ég missi ekki a.m.k. 10 kíló, ég er að segja ykkur það.

7.12.05

Your Birthdate: September 28

You have a Type A personality so big it makes other Type A's shrink away in shame.
You never shy away from adversity - and you love to tackle impossible problems.
Failure is not an option for you, and more than a few people are put off by your ego.
You tend to be controlling, and you hate leaving anything up to chance.

Your strength: Your bold approach to life

Your weakness: You don't accept help

Your power color: Bronze

Your power symbol: Pyramid

Your power month: October

6.12.05

Jæja fór í fyrsta prófið í dag og er strax orðin algjörlega vansvefta og geðveik.

Það er mikið að pirra mig þessa dagana að lakið sem ég er með á rúminu (svona frotté-teygjulak) virðist vera aaaaðeins of lítið. Þannig að ef ég bylti mér vitlaust skýst eitt hornið af og í átt að miðjunni. Ef ég laga það ekki strax fylgja hin á eftir og ég enda öll flækt í einhverjum asnalegum frotté-köggli. Ég skemmti mér semsagt við það á næturnar að festa lakið á rúmið.

Völundur spurði mig af hverju ég skipti ekki bara um lak. Það er nú bara út af því að lakið sem passar á rúmið er grænt og passar engan veginn við rúmfötin. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera í þessu... á ég bara að skipta um allt eða? Kaupa nýtt lak kannski? Ansans.

5.12.05

Smá til að koma okkur í jólaskap.

4.12.05

Jæja, þá er prófatíðin opinberlega hafin og kominn tími til að raða bolum og sokkum í litaröð og þrífa innan úr eldhússkápunum.

Ég var að spá í að halda partý á gamlárs en upp hefur komið sú hugmynd að nýta Grettinn áður en hann verður seldur.

Nú, ekki slæm hugmynd gæti fólk haldið. Meira pláss og svona. Rétt rétt. Hins vegar hef ég nokkrar áhyggjur af Bjórmálaráðherra frænda mínum. Hann er alltaf að skamma mig fyrir að hækka tónlistina og svo má aldrei hlusta á neitt skemmtilegt. Nei, það þarf alltaf að hlusta á eitthvað artí-fartí dæmi og allur diskurinn þarf að rúlla í gegn. Stundum gott, en ekki þegar um er að ræða 30 laga side project hjá hljómborðsleikaranum í Chavez. Þannig að ég kem með tölvuna mína og tónlistina og við munum hlusta á eighties lög og Stevie Wonder. Ó jú. Kannski eitthvað artí-fartí líka en ekki allt kvöldið. Kannski getum við gert þetta lýðræðislega. Kannski.

3.12.05

Ó já, mig vantar líka bráðlega nýjan gemsa. Þessi er alveg að detta í sundur.

You Are a Martini

There's no other way to say it: you're a total lush.
You hold your liquor well, and you hold a lot of it!

1.12.05

...Og mig vantar líka maskara og rauðan sanseraðan varalit. Og púður. Og skóna sem ég sá í Top Shop í dag. Og nærbuxur. Og nýja Trivjalið.