Harmsögur ævi minnar

29.12.06

Ég blogga eigi vegna þess að ég hef nákvæmlega ekkert að segja. Þarf ennþá að læra en geri ekki, er búin að fá illt í magann af ofáti og er hætt að sjá skýrt af sjónvarpsglápi. Glæsilegt, glæsilegt alveg.

20.12.06

Æi nú er ég búin að lesa næstum allt sem ég ætlaði að lesa fyrir þessar blessuðu ritgerðir mínar. Þá er bara að byrja að skrifa en ég þjáist af ægilegum verkkvíða þannig að ég get ekki byrjað, eða veit ekkert hvar ég á að byrja réttara sagt. Ég held að ég sé hrædd við það að komast að því hvað ég veit lítið. Auk þess man ég ekkert hvað ég var að lesa en ég man a.m.k. að einhvers staðar var vöngum velt um það hvenær bolli væri bolli og hvenær bolli væri orðinn að skál eða vasa. Hver hefur ekki velt því fyrir sér? Ekki ég, svo mikið er fokkíng víst.

Svo er bara aldeilis ekkert jólalegt í borginni. Rigning og rok er alveg óuppáhalds veðrið mitt í öllum heiminum og ég vil ekki sjá svona kjaftæði.

Æi, skrifa skrifa skrifa. Á ég ekki bara að dúndra enhverju bulli á blað, segja það gott og eyða svo kvöldinu í mirtódrykkju, kelerí og jólagjafainnpökkun? Sounds like a plan to me.

19.12.06

NEEEEEIIII!!!!!


Never Date a Scorpio

Jealous, paranoid, and possessive - deep down, your Scorpio will never trust you.
And even if you are very trust worthy person, Scorpio's paranoia may drive you to act out.

Instead try dating: Aries, Gemini, Libra, or Sagittarius

18.12.06

Það er snilld að vera kominn heim. Partýið hjá Glókolli var ógeðslega skemmtilegt... algjör snilld. Restin af helginni fór svo bara í kúrerí og vídeógláp með bangsanum sínum. Yyyyndislegt. Það sem er aðeins minna yndislegt er að nú sit ég sveitt og hundsyfjuð á bókhlöðunni að lesa merkingarfræði. Djöfull sem það er leiðinlegt. Mig sem langar að hanga á kaffihúsi og pakka inn gjöfum og svoleiðis. Fullt af fólki sem ég þarf að hitta og spjalla við um allt og ekkert og drekka kaffi og hlæja og fíflast. En nei, svona er þetta þegar maður er letingi og nennir ekki að gera hlutina á réttum tíma. Mikið hlakka ég til næstu jóla, þá ætla ég nefnilega að vera heimavinnandi húsmóðir og baka fullt af smákökum og fá gesti í kaffi og fara í maníkjúr og svoleiðis. Aldrei aftur skóli. Nei nei nei!

14.12.06

Þá fer maður alveg að leggja í'ann. Ég þurfti reyndar að opna ferðatöskuna aftur og tæta uppúr henni þegar ég fattaði að ég var berfætt og búin að pakka niður öllum sokkunum mínum. En það bjargaðist. Svo vona ég bara og voooona að ég þurfi ekki að borga yfirvigt.

Nú þá hlakka ég bara til að sjá ykkur, og það ekkert smá. Flest á morgun væntanlega og aðra seinna. En að öllum ólöstuðum verður samt besta hittið í kvöld. Það verður geggjað.

Arrivederci,
Flökku-Deeza.

13.12.06

Ég er að fara heim á morgun! Ég hlakka svo mikið til að ég hef ekki tíma til að hafa áhyggjur af því að ég á eftir að gera fáránlega mikið fyrir skólann. Næsta vika þyrfti að fara öll í lærdóm en það meikar ekki diff... svosem líka bara sjálfri mér að kenna.

Annars er helgin alveg frátekin. Ég hlakka svoooo til að fara í partý á föstudaginn. Þessu sama partýi til heiðurs setti ég nýtt lag á mæspeisið, lag ljóss og friðar eins og það er kallað á mínu heimili. Sumir ættu a.m.k. að kannast við það.

Svo er ég búin að vera ofurdugleg að strauja kreditkortið. Ég keypti t.d. fullt af víðum sparibolum til að fela bjórvömbina. Ég er nefnilega með eðlilegar, eða tjah, jafnvel bara fitt lappir (allar hjólreiðarnar sko) en svo þegar komið er upp að mitti, obbobbobb, hér höfum við lent í vandræðum og PLAFF - springur allt út. Ég er eiginlega eins og kjarnorkusveppaský í laginu. En það er of seint að laga það og þá er bara að klæða það af sér í staðinn. Ég á hvort sem er kærasta svo ég er alveg slök. Ég get ekki beðið eftir því að trúlofa... nú, eða jafnvel gifta mig. Þá getur maður sko farið að fitna almennilega.

10.12.06

Jesss, það var reynt við mig á föstudagskvöldið. Einhver gaur vatt sér upp að mér, eða greip í mig öllu heldur og vildi endilega stofna til frekari kynna. Ég afþakkaði pent og sagðist eiga kærasta. Þá ljómaði minn maður og sagði að það væri nú aldeilis ekki vandamál; hann væri nefnilega giftur.

Er fólk semsagt almennt bara þroskaheft, eða hvað er málið?

8.12.06

Nú á ég að vera að læra og þá að sjálfsögðu blogga ég eins og vindurinn. Ég er með þrjú þus. Þau eru eftirfarandi:

 1. Ég á að vera að skrifa ritgerð um sérhljóðakerfi. Það gengur ekki neitt. Hverjum er heldur ekki drullusama um einhverja sérhljóða? Ég skil ekki, bara SKIL EKKI hvað í andskotanum ég var að hugsa þegar ég ákvað að halda áfram í skóla. Það var vægast sagt ein af mínum heimskulegustu ákvörðunum. Fer alveg í topp 5 með magaþjálfanum og spírítúalísku hipp hopp geisladiskunum sem ég lét pranga inn á mig hérna um árið af einhverjum ógæfulegum austantjaldsbúa.
 2. Þegar ég kaupi poka með hnetum og rúsínum, þá ætlast ég til þess að það sé jafnmikið af hvoru. Það eru ekkert nema bévítans rúsínur í þessu drasli. Heimska Sainsbury's pakk.
 3. Það er glatað að lesa blogg hjá fólki sem þarf alltaf að þylja upp hvað það gerði í ræktinni. Boooring! Reyndar má nú alveg benda á það að ég þarf svosem ekkert að lesa blogg, og hvað þá hjá bláókunnugu fólki, en það er aukaatriði. Það er samt ömurlega leiðinlegt að lesa hvað fólk gerði margar magaæfingar eða hvað það tekur í bekk.

Þá er það búið í bili.

7.12.06

Ég ætlaði í lab-ið í dag að taka upp aðblásturinn minn, en viti menn, var ekki tæknidúddinn bara veikur. Ég ákvað því að leita mér að áramótakjól í staðinn. Ég mátaði fullt af drasli en leit út eins og roadkill í öllu og varð hundfúl yfir þessu öllu saman. Ætli ég endi ekki á því að vera í sama kjól og í fyrra. Já einmitt, ekki séns. Keypti mér þó ótrúlega fallega spariskó og nýjan maskara svo ekki var þetta alslæmt.

Mig langar gríðarlega að:

a) hætta að missa símann minn út um allt, hann er allur skakkur og rispaður og ekkert fínn lengur.

b) hætta að ganga utan í hluti og reka mig í allan andskotann því ég er öll út í marblettum. Það er ekki smart.

Annars er ég að koma heim eftir... viku! Djöfull sem ég hlakka til, jafnvel þó ég sé með ræpu upp á bak út af skólanum. Skiptir engu máli, það reddast alltaf. Ég get ekki beðið eftir að hitta alla, þó sérstaklega Glóa sinn sem hefur varla litið bjartan dag síðan ég kvaddi (eða þannig ímynda ég mér það) og svo auðvitað kærastann sem ég ætla að kreista þangað til hann fær hjartaáfall.

6.12.06

Jesss maður, var að vakna... á bókasafninu! Ég hef nú greinilega ætlað að læra fyrst ég er þar. Er það ekki hugurinn sem skiptir máli? Er annars með skÍtalastelpu í heimsókn sem ég sendi að rölta um bæinn, kannski ég fari að leita að henni bráðlega.

4.12.06

Eftir margar rannsóknir, þá síðustu núna í dag, hef ég komist að því að ég get ekki lesið uppi í rúmi. Ég sofna alltaf, auminginn og letihaugurinn sem ég er. Djöfulsins.

3.12.06

Ég fór á Gilbert & Sullivan söngleikinn Iolanthe á föstudaginn. Ég hef ekki gaman af söngleikjum en lét mig þó hafa það þar sem ég þekki tvær manneskjur sem tóku þátt. Þetta var ágætt, þrátt fyrir afburða fáránlegan söguþráð og óeftirminnilega tónlist. Svo voru flestar álfastelpurnar í þybbnari kantinum, en það þarf nú ekkert að vera neikvætt.

Í framhaldi af þessari upplifun ákvað ég að gera lista yfir þá söngleiki sem ég man eftir því að hafa séð (flestir úr námskeiðinu Hollywood Musicals í HÍ, sem var vægast sagt ekki í uppáhaldi hjá mér). Það veit fólk sem mig þekkir að mér þykir fátt skemmtilegra en að skrifa lista og hver veit nema þetta komi einhverjum að gagni næst þegar haldið verður út á vídeóleigu.

 1. Top Hat: Ógeðslega skemmtileg.
 2. Porgy & Bess: Frekar súr en frábær tónlist.
 3. Kiss Me Kate: Fáránlegur andskoti í skrýtnum litum.
 4. Oklahoma: Algjört helvítis gubb.
 5. Gold Diggers of 1933: Alveg ágætlega skemmtileg.
 6. Singing in the Rain: Æði... og Gene Kelly er jömmmmí.
 7. West Side Story: Gubb og þynnkuskita.
 8. The Wizard of Oz: Njiii.
 9. Show Boat: Tjah, hvað skal segja, frekar furðuleg. Fær þó stóran plús fyrir þá gleði að láta kallhetjuna heita Gaylord Ravenal.
 10. Meet Me in St. Louis: Skemmtileg og hugljúf.

Man ekki eftir fleirum í augnablikinu og þarf líka að fara út að reykja og ná mér í súkkulaði áður en ég byrj... held áfram að læra.

1.12.06

Tek alla fýlu til baka. Fann Twix á skrifborðinu mínu, gleði gleði!

Oj, ég er að skrifa niður hundleiðinlega punkta fyrir eina af þessum hundleiðinlegu ritgerðum sem ég þarf að drullast til að skrifa. Það sem gerir þetta aðallega svona hundleiðinlegt er að ég er að fara að hitta leiðbeinandann minn á eftir og er auðvitað á síðustu stundu með þetta eins og allt annað.

Það sem mig langar mest að gera er að dúlla mér í smákökubakstri og músastigagerð allan desember. En þar sem það stendur ekki til boða er ég að spá í að vera bara full allan mánuðinn í staðinn.

Ég nenni ekki að senda nein jólakort, þannig að enginn má verða fúll ef hann fær ekkert. Það þarf kannski ekkert að taka það fram... ég fæ heldur eiginlega engin jólakort lengur, enda hætti ég að senda öllum þegar ég byrjaði í skóla fyrir rúmum fjórum árum. Svo hef ég alltaf verið í prófum til kortér í jól. Það á reyndar ekki við núna en þetta er bara verra því nú verð ég að vera með samviskubit á aðfangadag yfir því að vera ekki að skrifa. Jedúddamía hvað maður á bágt!