Harmsögur ævi minnar

27.2.07

Ég reif mig á lappir alltof snemma til að fara í drullutölfræði. Tímasóun, þar sem við sátum og störðum á töflur og gröf með galtómu augnaráði. Þetta var eins og atriði úr Nótt hinna lifandi dauðu, svei mér þá. Eini kosturinn var að kennslukonan var með þynnra hár en ég. Það hlakkaði í mér yfir því.

°°°

Ég er búin að finna mér ný uppáhalds snyrtivörumerki. Er að skrifa lista yfir það sem mig "vantar" og ætla bráðlega að skunda í Boots með vísa.

°°°

Svo er spurning hvort maður hendi sér í ræktina á eftir. Alltaf þegar ég ætla í ræktina ranka ég við mér úti í bakaríi með eitthvað gúmmilaði. Ég skil ekki neitt. Ætli bakaríið sé í sama húsi?

26.2.07

Kærastinn minn er mjög spenntur fyrir því að fara á Hróarskeldu. Þar vill hann hlusta á svokallaða "house" tónlist sem ég kann því miður lítil skil á. En mér er svosem skítsama, tónlistarhátíðir eru alltaf ógeðslega skemmtilegar, sama hvað maður horfir á. Það væri þá jafnvel hægt að kíkja á Fridzann sinn í leiðinni.

Annars er ég að reyna að koma mér í gang. Þessi frestunarárátta er alveg fáránlegt fyrirbæri. Ætli það séu til lyf við þessu?

21.2.07

Jessss! Það fann einhver síðuna mína með því að gúggla "orlídeig". Það er bara snilld... ég sem eeeelska orlídeig! Ef ég mætti ráða væri ég sjálf risastór, djúpsteiktur orlíbangsi.

Update: Það fann einhver annar síðuna mína með gúgglinu "hundar skíta blóði". Snilld þessi teljari. Og eru blóðskítandi hundar síst verri en orlídeig!

Ég var samt ekkert að skrifa um svoleiðis.

Æi, ég get ekki ákveðið hvort ég á að hafa mæspeisið læst eða ekki. Það eru nú svosem engar merkilegar upplýsingar þarna inni, en náttúrulega myndir og svoleiðis dótarí. Mér finnst svolítið óþægilegt að fólk geti skoðað þetta. En það er náttúrulega bara af því ég er svo viðbjóðslega hnýsin sjálf og alltaf að skoða drasl hjá fólki sem ég þekki ekki neitt, og mér kemur ekkert við. Kannskir eru aðrir ekki svona forvitnir.

Úff, ég læsi og aflæsi til skiptis, mikið er erfitt að geta aldrei tekið ákvarðanir um neitt. En jafnframt afskaplega gleðilegt að það eru ekki meiri erfiðleikar í lífinu hjá manni en þetta.

20.2.07

Þá er fröken Dóra flogin burt. Áttum við nokkra afskaplega glaða daga saman við leik og störf; aðallega leik samt. Í gær bættist fyrrverandi tilvonandi eiginmaður minn í hópinn og ekki var það verra. Ég fylgdi þeim svo út á strætóstoppistöð í morgun og á ekki von á öðru en að allt hafi gengið vel.

Ég fór svo beint í að gera fyrirlesturinn sem ég þarf að halda á morgun. Gubbedígubb. Ég fann samt ótrúlega flotta mynd af Hank Azaria á sundskýlunni sem ég ætla að setja í skyggnusýninguna mína.

Dóra keypti handa mér Íslenska tungu heima, sem er þriggja binda meistaraverk; þar af heilt bindi bara um hljóðfræði! Ég get ómögulega lýst spenningnum. Kannski maður kveiki á kertum og reykelsum um helgina, opni eina rauðvín og gluggi í hana. Það væri nú aldeilis ekki amalegt.

13.2.07

Ég fór í jóga í dag og leist miklu betur á það en pilates. Ég gerði a.m.k. eitthvað... tjah, eða reyndi réttara sagt. Þetta var asskoti snúið sumt.

Í jógatímanum var maður sem ég og Tobbi sáum á hverfispöbbnum á fimmtudaginn. Þá var hann íklæddur níðþröngum teinóttum Tark buxum og ofurháum Buffaló-eftirlíkingaskóm með götum á upphækkuninni og gormum fyrir innan. Hann var þó ekki með gullfiskabúr í botnunum, það er hægt að hugga sig við það. Í dag var hann bara í íþróttagalla og fór það honum ívið betur.

Miðbærinn í Cambridge er semsagt fullur af hipp og kúl stúdentum, en hverfispöbbarnir eru af einhverjum ástæðum fullir af fólki sem heldur ennþá að það sé '91. Ekki það að mér sé ekki skítsama hvernig fötum fólk gengur í. Samt fyndið. Það skyldi þó ekki vera kominn tími á marglitu gallabuxurnar og inka-hettumussurnar aftur? Og nýbylgju hippaklæðnað *hrollur*. Gott ef ég á ekki vaxjakka einhvers staðar líka. Maður fór nefnilega svo mikið á veiðar hérna í denn.

11.2.07

Piparmyntan var með partý í gær fyrir söngleikjavini síni. Það var svosem alveg á stefnuskránni að vera með, en gleðin hófst ekki fyrr en um eitt, þannig að ég nennti ekki að dröslast niður. Í náttfötunum. Það voru alveg læti, en þó ekki neitt miðað við það sem maður er vanur. Í mínum hópi telst það nú ekki einu sinni partý nema löggan komi að minnsta kosti þrisvar.

Þó var eitt sem truflaði mig og það var þegar einhverjar stelpuskjátur sungu dægurlög með skrækri óperuröddu. Jakk.

°°°

Ég var að kíkja á atvinnuauglýsingar á mbl.is. Why, oh why lærði ég ekki verkfræði eða tölvunarfræði? Ég sver það sko. Ætli maður endi ekki á því að kenna einhvers staðar úti á landi. Úff. Kannski bara í febrúar ha? Það fer nú að styttast í niðurstöður úr ritgerðum dauðans.

°°°

Svo var ég að kíkja á þetta nýja blogger dæmi sem átti víst að vera troðfullt af nýju sniðugu dóti. Ég sé nú ekki neitt nýtt sniðugt nema maður getur sett merkimiða á hvern póst. Jibbífokkíngjei. Ég hef verið blekkt.

10.2.07

Blogger píndi mig til að skipta yfir í nýja dæmið. Piff. Læt það liggja milli hluta af því ég var að borða ógeðslega gott Ritter Sport súkkulaði með cappuccino fyllingu.

Fékk óvænta heimsókn á fimmtudag fram til dagsins í dag. Þar var á ferðinni (hinn óheppni ferðalangur) Fyrrverandi, sem lent hafði í miklum hrakföllum á leið sinni til unnustunnar á Spáni. Allt leystist þó á endanum.

Enívei, ætlaði að lesa ógeðslega mikla hljóðfræði í dag, en horfði í staðinn á báðar seríurnar af Spaced. Djöfull eru þetta vangefið góðir þættir. Tíma vel varið segi ég.

8.2.07

Noh! Hér er bara snjór út um allt! Ég er svo aldeilis hissa. Ég verð greinilega að fara á vélsleða til læknisins.

(Og af hverju er komið word verification þegar maður bloggar?)

7.2.07

Heyrðu já, piparmyntudúddi bankaði uppá hjá mér á sunnudaginn þegar ég var sem verst. Ég dröslaðist framúr, nær dauða en lífi. Hann spurði: "Jæja, hvernig hefurðu það?" (Hvernig hef ég það?? Ég leit út eins og hundaskítur með lifrarbólgu!),
D: "Tjah, frekar skítt bara",
P: "Heyrðu, hvenær ætlarðu að koma á sýninguna hjá okkur?",
D: "Öööö, bara, hmmm, þegar ég kemst kannski... ha, já ef ég verð enn á lífi",
P: "Ok, frábært, sjáumst þá".

Nú vil ég undirstrika... ekki HVORT heldur HVENÆR ég kem á sýninguna. Ég hef áður sagt frá því að ég er ekki hrifin af söngleikjum en braut þó odd af oflæti mínu um daginn og fór. Er ég núna semsagt skuldbundin að fara á hverja einustu sýningu sem hann kemur nálægt bara af því við búum í sama húsi? Það þykir mér afskaplega glatað og sérstaklega þar sem ég þoli ekki að þurfa að gera eitthvað. Þá kemur upp í mér mótþróapúki mikill. Og mig langar ekkert að fara á þetta drasl. Kannski sjálfri mér að kenna, þar sem ég sagðist hafa skemmt mér konunglega á hinni sýningunni, meðan mér fannst hún í besta falli þolanleg.

Jæja, eitthvað finnst mér ég nú vera skárri. Ég er a.m.k. farin að geta hugsað aftur, og er ekkert búin að sofna síðan ég vaknaði í morgun. Og verkjapillulaus og allt. Ég tek samt enga sénsa og reyni að hreyfa mig sem minnst. Reyndar á ég ég tíma hjá lækni á morgun og ætla að drullast þangað þótt mér sé að batna... BARA af því ég beið svo lengi eftir að fá tíma.

Eftir nákvæmlega tíu mínútur á ég að flytja fyrirlestur um mastersritgerðina mína. Það segir sig sjálft að það er ekki að fara að gerast enda er ég hér en ekki þar. Óheppin þau og gríðarlega heppin ég. Þarf væntanlega að gera það í næstu viku í staðinn.

Svo er líkaminn í uppreisn. Ég held að hann sé að reyna að vinna upp þrek eftir veikindin og þar af leiðandi er ég alltaf svöng. Ég er nú ekki búin að borða neitt gríðarlega mikið, enda ekki mikið til. Svo reynir maður bara að drekka vökva og sofa í svona ástandi. En slíkt gildir ekki lengur og hér heyrist garnagaulið úr mér um allt hverfi. Ég borðaði hádegismat áðan en neibb, óhljóðin héldu áfram. Þá tróð ég kexi og kökum ofan í mig þangað til ég gat ekki komið meiru niður, og nú hefur skrímslið þagnað. Vonandi í nokkra klukkutíma, eða helst í allan dag. Ég get hreinlega ekki borðað meira.

6.2.07

Nei, ekki er ég nú látin úr hungri, heldur er ég að drepast úr veikindum. Ég held að ég hafi ekki orðið svona lasin síðan ég fékk flensu dauðans 2002. Þvílík helvítis leiðindi og tímasóun. Ég veit ekki hvort ég á að drulla mér til læknis... finnst svolítið að ef ég kemst til læknis að þá geti ég alveg eins farið í skólann. Ég er samt orðin nett pirruð á að líða eins og einhver sé að sarga hausinn á mér í tvennt með vélsög. Djöfulsins andskotans...

3.2.07

Ojjj lasin. Ég er reyndar búin að sofa nánast í 24 tíma og finnst ég vera aðeins hressari, en það gætu þó líka verið verkjalyfin. Nú er vandamálið hins vegar það að ég er að drepast úr hungri. Piparmyntumeðleigjandinn minn er með einhverja kaffigesti niðri í eldhúsi (örugglega einhver söngleikjafrík) og ég er í engu stuði til að mingla neitt, enda í joggara, sveitt og með hárið út í loftið. Í gær borðaði ég epli sem ég fann í úlpuvasanum mínum, ég vissi sko að það myndi einn daginn koma sér vel að vera alltaf með ávexti á sér, þó ég borði þá aldrei.

Nú vantar mig semsagt uppástungur. Á ég að reyna að snúa dúfu úr hálsliðnum út um gluggann hjá mér og grilla á kerti? Borða af mér hárið? Hjálp einhver, áður en ég svelt til dauða!