Harmsögur ævi minnar

27.6.10

Ég þarf svo mikið að næla mér í svona fyrir sumarið.

Ég er orðin kelling. Ég hjólaði upp í Laugardal um daginn í góðu veðri og langaði undir eins að flytja þangað. Það er svo mikill gróður þar og skjólsælt. Þetta er í fyrsta sinn sem mig langar að búa annars staðar en í 101. En maður gleymir ekki aðalatriðunum, neibbs, ég reiknaði líka út á Já.is hversu langt er á danska barinn og það er bara rétt hálfum kílómetra lengra en heiman frá mér núna þannig að it's all good.

21.6.10

Þegar sumarið kemur langar mig alltaf til að vera með garð. Til að rækta grænmeti og líka til að sitja og drekka bjór og grilla og svoleiðis. Við gerðum reyndar tilraun til að rækta grænmeti á einhverjum skika í fyrrasumar. Verkefnið byrjaði af miklum krafti en nokkuð dró úr áhuganum þegar líða tók á sumarið. Við dröttuðumst til að kíkja á þetta einhvern tímann um haustið og þá var allt salatið myglað, radísurnar ormétnar og kartöflugrösin falin í arfaskógi. Við lögðum því ekkert í svoleiðis ævintýri aftur. Reyndar var skikinn uppi í Grafarvogi... það er náttúrulega ekki við því að búast að eðlilegt fólk geti verið að keyra lengst upp í sveit vikulega og jafnvel oftar til að vökva. Er ekki hægt að fá neitt svona aðeins nær miðbænum?

19.6.10

Ég var að fatta að það var einmitt á síðasta HM í fótbolta sem ég og Sambó fórum að draga okkur saman. Þá þóttist ég nenna að glápa á fótbolta. Þá fór ég líka alltaf inn á klósett til að prumpa. Hvað gerir maður svo sem ekki fyrir ástina?

14.6.10

Mér finnst mjög gaman að Popppunktur sé byrjaður aftur. Er þá ekki tilvalið að endurútgefa spilið? Við erum komin marga marga hringi í spurningunum og auk þess er búið að hella ógeðslega oft yfir spjaldið og popphjólið orðið klístrað og stirt. Það má eiginlega segja að þetta gangi ekki lengur.