Harmsögur ævi minnar

31.3.11

Ég er sjúklega lítið spennt fyrir Eurovision (af hverju Evróvisjón? Af hverju þá ekki Evrósýn?), aldrei þessu vant. Íslenska lagið er svo döll að maður gleymir því meðan það er ennþá í gangi, ekkert hægt að hafa neitt skemmtilegt þema og bara allt í eymd og volæði. Ég ætla hugsanlega bara að velja mér annað land til að halda með. Mér líst t.d. svaka vel á þennan frá Möltu:


Albanía er líka nett:


Hellað gott þema - allir með rautt hár. Ég hef svo sem ekki heyrt neitt af þessum lögum en það er algjört aukaatriði. Aðalmálið er að sjálfsögðu að vera fullur og í megastuði. Vúhú.

28.3.11

Ég er að reyna að manna mig upp í það að vera duglegri að hreyfa mig. Satt best að segja finnst mér ekkert leiðinlegt að fara í ræktina, svona þegar ég næ að útiloka Scooter-tónlistina og hressu „KOMASOOOO“-ópin frá þjálfurunum. Nei nei, það sem er aðallega fúlt við þetta er að á ræktartíma langar mig miklu frekar að gera eitthvað annað. Til dæmis fara á barinn. Bjór í góðum félagsskap er augljóslegra betra val en að vera með andlitið klesst ofan í sveitta táfýlumottu. En svona er víst lífið.
- - - -
Nýr tengill: Sigurbjörn. Sigurbjörn er róttækur femínisti og algjört æði. Ég mæli með því að fólk tékki á honum.

16.3.11

Ojojoj ég var að fá fésbókarvinabeiðni frá bilaða Frakkakvikindinu sem ég leigði einu sinni með (sjá okt. - nóv. 2003 til skýringar). Mikið hef ég rosalega lítinn áhuga á að vera í sambandi við hann. Ég snuðraði samt aðeins á síðunni hans og sýnist hann vera kominn með þessa líka huggulegu kærustu. Ætli hann sé þá hættur að drepa í sígarettum í túnfiskdósum, spyrja fólk hvort baunir séu borðaðar á Ítalíu, berja fólk og eltihrella og vera almennt krípí og furðulegur? Maður spyr sig.

15.3.11

Ég fann afganga af grjónagraut í boxi inni í ísskáp. Ég er samt eiginlega alveg viss um að það hafi ekki verið eldaður grjónagrautur heima hjá mér á þessu ári. Sooooldið ógeðslegt.

8.3.11

Ég var allt í einu að átta mig á því að ég hef ekki fengið mér sveittan beikondrjóla hjá Nonna í mörg ár. Þessu verður að bæta úr hið snarasta. Ég kenni andúð minni á öldurhúsum vestan Lækjargötu alfarið um þennnan feil. Fyrirgefðu mér Nonni.

Ég er komin í jólaskap af öllum þessum snjó. Það er náttúrulega alveg ferlegt í byrjun mars.

6.3.11

Oj hvað ég hata sunnudaga. Þeir klárast nefnilega og þá kemur, jú, mánudagur. Gubb. Ég ætlaði einmitt að þrífa í kvöld en sambýlismaður minn sannfærði mig um að það væri arfaslök hugmynd (bless his soul). Þá hugsa ég að ég fari í náttfötin, fái mér ostapopp og horfi á eitthvað skemmtilegt. Það er svo miklu miklu betra plan. Enda ekki hægt að vera til í svona biluðu skítaveðri eins og er úti brrrr. Annars skil ég ekki allt þetta heimilisvesen sem fylgir tveimur einstaklingum í 35 fermetrum. Og við erum eiginlega alltaf í vinnu eða skóla. Samt er hér uppvask eins og við rekum 1000 manna hótel og óhreinn þvottur eins og hér búi 30 smákrakkar. Algjörlega óskiljanlegt. Ekki sóða ég svona mikið út held ég, ég er alltof upptekin við það þegar ég er ein heima að athuga hvort það sé ekki örugglega slökkt á eldavélinni og allar dyr læstar. 


Ég er alvarlega að spá í að verða myndlistarmaður; þá gæti ég verið eins og Brian í Spaced. Ég þrái að sleppa mínu innra nöttkeisi alveg lausu. Það er þreytandi að þykjast vera eðlilegur. 


(Hér er tengill á Brian, af einhverjum ástæðum límast Youtube-myndbönd yfir alla síðuna ef maður embeddar.)

5.3.11

Eins gaman og ég hef af Gettu betur þá er ég orðin hrikalega leið á þessum ofur metnaðarfullu klappliðum sem eyðileggja algjörlega þáttinn með öskrum og hávaða og leiðinlegum fagnilögum eftir hverja einustu spurningu. Þetta var stuð þegar ég var sjálf í menntaskóla (minnir mig) en núna... not so much. RÚV ætti að sjá sóma sinn í því að setja klippta útgáfu af þessu á vefinn hjá sér svo það sé horfandi á þetta. Og nú ætla ég að setja rúllur í hárið á mér og hringja í Þjóðarsálina á meðan ég klappa öllum köttunum mínum. Það held ég nú.

2.3.11

Ég keypti þráðlausa fjarstýringu á tölvuna um daginn og get nú spilað Super Mario Bros 1, 2 og 3 í fartölvunni eins og ég eigi lífið að leysa. Mikið er það skemmtilegt... en ekki var nú grafíkin upp á marga fiska. Sá nýjasti, sem sagt í 3, er líklega þessi frá 1990 á myndinni.


Ég get spilað þessar útgáfur og svo Super Marioworld (a.k.a. Super Mario Bros 4). Super Marioworld var reyndar fyrir Super Nintendo-tölvurnar (Super Nintendo Entertainment System - SNES) en ekki gömlu NES-tölvurnar (Nintendo Entertainment System). Við áttum aldrei NES-tölvu. Það olli mér ómældum leiðindum þegar ég var krakki því Nintendo var best í heimi og það var geggjað fúlt að þurfa alltaf að troða sér í heimsókn til að fá að spila. Sem betur fer fjárfestu foreldrar bestu vinkonu minnar í svona eðalgræju á endanum. Foreldrar mínir keyptu svo SNES-tölvu sem bætti stuðið talsvert... reyndar var ég örugglega orðin svona 15 ára en lét það nú ekki stoppa mig, sei sei nei.

Næsta tölva var Nintendo 64 held ég alveg örugglega. Það átti reyndar enginn þannig sem ég þekkti en ég prófaði Super Mario 64 á vídeóleigunni sem ég var að vinna á og ó boj. Mario var allt í einu kominn í asnalega þrívídd og gat ekki bara hlaupið til vinstri og hægri, heldur líka á ská og allskonar. Ég hljóp hundrað sinnum fram af einhverri brú og fékk helvítið hreinlega ekki til að hlýða. Þarna vissi ég að þetta væri búið spil hjá mér og að Super Marioworld væri líklegast þróaðasti Mario-leikurinn sem ég kæmi til með að spila. En það er líka bara allt í lagi.