Harmsögur ævi minnar

28.4.11

Ef fjandans Siglfirðingurinn hefði ekki hirt af mér allar milljónirnar í lottóinu um daginn hefði ég látið byggja svona kvikindi handa mér í Vatnsmýrinni. Ég sé ekki að þessir Vísindagarðar rísi þar hvort eð er. Því miður hefði ég alltof gott útsýni yfir sveitta og örvæntingarfulla námsmenn. Sennilega myndi ég bara fara fram á að Háskólinn yrði færður eitthvert annað.

24.4.11

Mikið er gott að vera í páskafríi, nú eða bara einhvern veginn fríi. Ég og Sambó erum með mikla veislu í bígerð... reyndar ætluðum við að grilla aðalréttinn en veðrið er svo snældubrjálað að ég veit ekki hvort það verður hægt. Ég er svo sífellt að fylgjast með panna cottanu mínu inni í frysti. Aðallega af því að ég er svo spennt yfir því að hafa verið að nota matarlím í fyrsta skipti. Þ.e. í mat, ekki til að búa til rúður í barbíhús og svoleiðis. Þetta verður væntanlega sturlað. 

Svo eftir helgi kemur sumarið. Ég finn það í mjöðminni. 

18.4.11

Ég fór í klippingu um daginn. Klippikarlinn minn aflitar alltaf á mér hárið sem okkur finnst báðum mjög kúl en er reyndar ekkert sérstaklega þægileg aðgerð. Það þarf líka að hafa aflitunarefnið sjúklega lengi í mér af því að inní mér býr lítill túrhaus sem þráir að komast út og ef efnið fær ekki að bíða nógu lengi verður hárið mitt gult en ekki hvítt. Ég leið sem sagt vítiskvalir núna síðast og var með sár úti um allt á hausnum eftir þetta baneitraða stöff. Nema hvað að það eru nokkrir dagar síðan og nú er ég komin með osomm hrúður á hausinn sem er ógeðslega skemmtilegt að kroppa af. Já, fátt er svo með öllu illt að ei boði gott!

14.4.11

Ég er alveg handviss um það að í sögu íslensks veðurfars hafi apríl aldrei verið jafn viðbjóðslegur og núna. Þetta er svo viðurstyggilega lífsletjandi að ég hef ekki einu sinni orku í það að vera pirruð og steyta hnefann reiðilega í átt að himni. Heima hjá mér er allt í drasli og ég hef ekki nennt að þvo þvott lengi lengi. Enda er ég komin í síðustu hreinu nærbrækurnar mínar og veit eiginlega ekki hvað ég á að gera í því. Ég gæti þvegið í kvöld... njeeeh, not gonna happen. Ég gæti snúið sæmilega hreinu pari á rönguna, nú eða bara farið nærbuxnalaus í vinnuna. Ég ætla að hugsa málið í nótt. Svo er ég svöng en til að elda þarf ég fyrst að vaska upp... njeeeh, not gonna happen. Ég verð bara að naga siggið af hælunum á mér. Eða éta vaselín. HVAR ER VORIÐ MITT?!


Auk þess legg ég til að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn verði lagðir í eyði. Takk fyrir.

12.4.11

Oj, þetta svokallaða íslenska vor. Það lætur mann halda að það sé að koma og svo koma allt í einu haglél. Urrrrg. Ég held það sé kominn tími á uppáhalds sumarmyndina mína. Hún hlýtur að hrekja leiðindin í burtu. Sól sól skín á mig!

6.4.11

Smá pirringur hér fyrir neðan. Svona gerist þegar maður er innilokaður heima með man-flu og gerir ekki annað en að sofa og lesa á feisbúkk.

Herre-fokkíng-gud, fer þessu Icesave-máli ekki að ljúka? Ég skal jafnvel taka það á mig að borga allt heila klabbið ef ég þarf ekki að hlusta á meira helvítis röfl og þvaður og bjálfalegar röksemdafærslur og áróðursræður úr báðum áttum. Já, segjum það bara. Hendið þessu aftan á námslánin mín og við erum góð.