Harmsögur ævi minnar

12.8.09

Mér líður kjánalega... systir mín bölvuð píndi mig til að keyra sig fársjúka á læknavaktina. Ég var með hausinn út um gluggann alla leiðina til að anda ekki að mér sýklum en það virkaði greinilega ekki. Ég vildi að þetta veika fólk myndi láta mig með mitt slaka ónæmiskerfi (ég var nefnilega svo stutt á brjósti) í friði. Nú er ég augljóslega komin með svínaflensu eða einhverja helvítis óværu. Og ef fólk ætlar að að smita mig af einhverju vil ég fá eitthvað úberkúl eins og fransós. Það fær enginn fransós lengur - ekki einu sinni Glókollur frændi af því hann er kominn með kærustu. Samt er það svona rollsinn í kynsjúkdómum. Svekkjandi.

Góðar fréttir eru þær að ég virðist ennþá vera á ítölskum tíma og er því rokin á lappir fyrir sex á morgnana. Þetta er bráðskemmtilegt og þá sérstaklega vegna þess að mig hefur alltaf dreymt um að vera A-manneskja. Ég hef meira verið svona Ö-manneskja. Og í morgun braut ég saman þvott, fór í langa sturtu og út í búð og var samt mætt í vinnu hálf átta. Bjútífúl.