Harmsögur ævi minnar

28.8.04

Fór í matarboð dauðans um daginn hjá konunni sem ég leigi hjá (og býr einmitt á móti mér). Hana langaði svo endilega að bjóða okkur í ekta sardinískan mat.

Matseðill:

1. Soðinn kálfsmagi með tómatmauki og mintu (for fuck's sake...).




2. Niðurskorin lifur með ólífum, kapers, hvítlauk og lauk.

3. Soðnir sniglar með hvítlauk og tómötum.

Ég hjálpaði henni að útbúa óþverrann og allt. Var reyndar búin að smakka allt meðan á eldun stóð en kenni þynnku og yfirdrifnu hungri um að bragðlaukarnir gáfu ekki viðeigandi viðvörunarmerki. Í kvöldmatnum sjálfum gafst ég fljótlega upp á seigum og áferðarskrýtnum magavefjunum. Og minta. MINTA!?!?! Ef það er eitthvað sem ég hata í þessu lífi (mér finnst hún svo vond að ég veit ekki einu sinni hvort orðið er skrifað með i eða y). Sem betur fer kláraði Michael af disknum mínum meðan húsfreyjan fór að sækja eitthvað í eldhúsið. Lifrin var reyndar ekkert hræðileg og sniglarnir ágætir þótt þeir væru helst til slímugir. Hún bauð okkur svo aftur daginn eftir í leifar. Ég laug að ég væri boðin í mat annars staðar og laumaðist út til að ná mér í pizzu. Fékk samt sem áður að þjást þar sem innyfladaunninn sveimaði enn um stigaganga og íbúðir í húsinu. Ekta sardinískur matur ph-túí. Þá kýs ég nú heldur súra hrútspunga og kæstan hákarl.