Harmsögur ævi minnar

10.9.08

Ég vinn að því hörðum höndum þessa dagana að breyta mér úr B-manneskju yfir í A-manneskju. Ég reyni því að kýla mig í svefn vel fyrir miðnætti og ruslast á fætur uppúr sjö svo ég geti verið mætt í vinnuna klukkan átta. Nú þetta gengur bara ljómandi vel þó ég sé næturbröltari mikill... enda var ég svosem ekkert að gera neitt merkilegt seint á kvöldin - bara hanga eitthvað og glápa á þætti á netinu eða gramsa í matreiðslubókum. Allt hlutir sem hægt er að gera á daginn líka.

Í morgun var ég þó komin á ról um klukkan sex sem mér finnst heldur snemmt. Fyrst vaknaði ég af því að ég þurfti að pissa og svo þurfti ég að lufsast á fætur skömmu síðar til að bjarga kisukjána sem hafði einhvern veginn komist inn til mín en komst ekki út aftur. Það var nú samt voða kósí að elda hafragraut í myrkrinu og rólegheitunum og kúra svo aðeins meira. En ég ætla nú ekki að ofmetnast - sjö verður áfram takmarkið.