Harmsögur ævi minnar

12.12.08

Fyrir listasjúkt fólk eins og mig (og þá á ég við fólk sem hefur unun af því að gera lista - ekki fólk sem hefur gaman af menningu og listum) er jólahátíðin yndislegur tími. Ég er búin að gera stórkostlegan jólakortalista og rétt í þessu var ég að ljúka við jólagjafalistann... hann er meira að segja kominn í lítinn plastgalla og allt og mun því passa vel í vasa án þess þó að krumpast eða drullast út. Ó, gleðihrollur! Nú og svo bætast við alls konar smotteríslistar, til dæmis eru smákökurnar búnar og þá þarf að gera nýjan innihaldsefnalista og þegar haldin eru partý og kaffiboð þarf að gera lista yfir snarlerí og drykki. Nú að ógleymdum vikulega Bónus-innkaupalistanum en ég verð að viðurkenna að mesti glansinn er farinn af honum.