Harmsögur ævi minnar

11.3.03

Ég er búin að taka mér frí í vinnunni á föstudaginn til að fara í myndatöku á ljósmyndastofu. Og nú veit ég alveg hvað þið haldið... Loksins fær Deeza sitt tækifæri í tískuheiminum eins og hún á skilið! Við vissum öll að það myndi gerast!

En neibbs, glanstímaritin þurfa að bíða enn um sinn því hér er ég að tala um fermingarmyndatöku systur minnar. Það þarf nefnilega alltaf að taka nokkrar fjölskyldumyndir líka. Ef hægt er að tala um fjölskyldu... núna eru mamma og pabbi ekki lengur gift þannig að þetta verður sennilega bara mynd af fjórum systkinum og foreldrum þeirra.
Jamm.
En það breytir því ekki að það er alltaf einhver einn eins og hálfviti á þessum myndum. Oft ég en líka aðrir. Það er bara svo óendanlega asnalegt að brosa svona "BROSA" - brosi. Manni líður eins og bjána og veit að það sést. Ojjjj.... kreistandi upp úr sér gervihlátur á ljósmyndastofu - ég sé alveg fyrir mér hvað þetta verður glatað.