Harmsögur ævi minnar

18.4.03

Ég fór með mömmu í bæinn í gær og hún var yfir sig hneyksluð.

Hún hafði nefnilega farið í skátagöngutúr með litla bróður mínum og fengið sig fullsadda af þessum krakkabjánum. T.d. var einn óþekktarormur í ferðinni sem hlýddi engu og henti meira að segja svalafernunni sinni úti á víðavangi. Mamma varð náttúrulega alveg snælduvitlaus, hljóp hann uppi og húðskammaði hann. Fékk svo skátaforingjann í lið með sér og saman héldu þær stráknum og tróðu tómu svalafernunni ofan í bakpokann hjá honum. Og mamma, sem þó á fjögur börn, viðurkenndi að hún gæti sko aldrei verið kennari eða unnið neitt með börnum í dag því þau væru svo gjörsamlega óuppalin. Hún myndi bara smala öllu liðinu í fjöruferð og drekkja þeim.

Og þetta verður amma barnanna minna!