Komin til Íslands. Snilld. Var (aldrei þessu vant) ekki stoppuð af fúlum tollvörðum (vissi að ég hefði átt að kaupa 2 sígarettukarton andsk...) og var komin út úr flugstöðinni korteri eftir að vélin lenti. Hljóp út um dyrnar með bros á vör og bjó mig undir að kasta mér í faðm æstrar fjöskyldunnar, allir með tárin í augunum og svona. En það var enginn að bíða eftir mér. Ég beið bara spök en ekkert gerðist. Hvorugt símakortið mitt virkaði og ég var ekki með klink í tíkallasímann. Ég spurði þá Avis-bílaleigukonuna hvort ég mætti hringja hjá henni (frekar en að biðja hana um að lána mér 50-kall). Hún var voða almennileg... "Æ æ, er bara enginn að sækja þig?". "Neeeei, lítur ekki út fyrir það...". Hringdi í móður mína og jú jú. Liðið var á leiðinni, einum og hálfum klukkutíma of seint reyndar en bjargaðist.
Mætti svo dauðþreytt upp á gamla Eggert um miðnætti og þurfti að þrífa kámuga eldhússkápa. Uss uss, þetta eru nú engar móttökur. Var svo vakin snemma í morgun til að fara í gegnum gamalt drasl sem hefur safnast saman í kössum í gegnum árin hjá mér og fyrrverandi meðleigjanda. Fundum ógrynni af rusli sem ég veit ekki af hverju við settum ofan í kassa til að byrja með, en svo hafa þeir bara flutt með okkur í hvert skipti. Ónýtir pennar, hárteygjur, gömul Séð & heyrt og Melody Maker, tómar stílabækur, glósur úr menntaskóla, box með glingri, gamlir og ógeðslegir varalitir, barnabækur, blandaðar útilegukasettur (fyrir tíma geislaspilaranna...) og síðast en ekki síst, rúsínan í pylsuendanum: Hundrað og eitthvað skærlituð plastarmbönd sem ég og Fridzy frænka stálum á frjálsíþróttamóti á Hellu fyrir 15 árum. Þessi armbönd ætluðum við að nota til að smygla okkur inn á Þjóðhátíð og svoleiðis en alltaf (þ.e.a.s. í svona 2 skipti) þegar ég hef ætlað að nota þau hef ég auðvitað ekki fundið þau. Því það man auðvitað enginn hvar hann setur svona drasl. HÉR ER ALLT FULLT AF DRAAAAASLI!!!!!
<< Home