Harmsögur ævi minnar

28.3.05

Arg, sumir dagar eru þannig að mann langar hreinlega til að drepa þá. Svoleiðis var laugardagurinn hjá mér. Byrjaði á því að baka marengstertu sem féll (væntanlega af því að Rita klaufi opnaði ofninn meðan á bökun stóð...). Eyddi svo 8 tímum í að spila Axis & Allies og skíttapaði í ofanálag (dýrmætur lærdómstími sem fór þar til spillis). Svo tók þvottavélin upp á því að leysa upp í öreindir einhver tuskuhelvíti sem ég var að þvo og tætlurnar stífluðu allar leiðslur með þeim afleiðingum að íbúðin fylltist af vatni. Seinna ætlaði ég að prenta út glósur en prentarinn gerði uppreisn og prentaði 300 blaðsíður af kvaðratrótarmerkjum og svörtum kössum. Svo í lok dags ætlaði ég að blogga um ófarirnar en þá tók tölvufíflið upp á því að frjósa og allt eyddist út.

Á móti kemur þó að ég átti frábæran páskadag. Fór í matarboð og át hráskinku, salami, heimalagaðar ólívur, ravioli með ricotta og spínati og grillað svín og lamb. Marengstertan vakti heilmikla lukku þrátt fyrir að vera í þynnri kantinum og þetta fór bara allt á besta veg. Eftir matinn fór ég svo að skoða hesta og geit sem hélt að hún væri hundur. Gaman að því.

Nú er bara læri lær á fullu... mér er reyndar illt í maganum af páskaeggjaáti en það hlýtur að líða hjá.