Harmsögur ævi minnar

4.4.07

Ég dró R með mér í verzlunarleiðangur í gær. Þetta var afskaplega útpælt því hann var algerlega ósofinn eftir vinnu um nóttina, og vissi ég að mótspyrna og skynsemi yrði í algjöru lágmarki. Við keyptum fullt af drasli, mest á hann þó, en það er í góðu lagi. Alltaf gaman að kaupa, sama hvað það er. Og hann er sko mjög sætur í nýju fötunum sínum.

Ég hef náttúrulega ekkert efni á neinu en það er alveg sama. Ég segi bara eins og Lilja Pálma sagði við Jón Ársæl í sjónvarpsviðtali hérna um árið: "Peningar hafa bara aldrei verið neitt issue fyrir mig". Sennilega eru peningar ekkert issue fyrir Lilju af því hún á nóg af þeim. Peningar eru hins vegar ekkert issue fyrir mig af því ég hef aldrei átt mikið af þeim. Kannski af því að ég er ekkert sérstaklega að spá í hvað ég eyði. En ég hef bara aldrei nennt að horfa í hverja einustu krónu. Maður tekur þá bara pasta-með-smjöri tímabil í smá tíma, það er ekkert mál. En mér finnst alltof gaman að kaupa hluti sem mig langar í og geri oft (innan vissra marka þó!). Reynslan hefur kennt mér að þetta reddast alltaf. Og ég nenni ekki að væla yfir peningaleysi þegar það er til fullt af fólki sem hefur það miklu miklu verra heldur en ég.