Harmsögur ævi minnar

3.10.08

Þegar ég fór í meistaranám haustið 2006 voru skólagjöldin í háskólanum í Cambridge u.þ.b. 10.700 bresk pund. Það hækkaði LÍN-skuldina mína um tæpa eina og hálfa milljón eða 1.420.000.- svona til að hafa þetta rétt. Ef ég ætlaði í þetta sama nám núna myndi það kosta mig 2.140.000.-, þ.e.a.s. að því gefnu að skólagjöldin hafi ekkert hækkað. Jæks.
---

Ég fékk auglýsingu í tölvupósti um eitthvað sem heitir Handtöskuserían og eru „þýddar erlendar skáldsögur eftir konur fyrir konur“. Já nei takk, ég veit sko alveg hvers konar skruddur er verið að tala um og ég hef enga þolinmæði fyrir slíkum „bókmenntum“. Einu sinni reyndi ég að lesa einhvern hrylling eftir „rithöfund“ sem heitir Sophie Kinsella. Þetta var svona kellingabók um konu sem var vann sem blaðamaður fyrir fjármálatímarit en obbobbobb, gat ekki hætt að kaupa sér designer-töskur og svoleiðis drasl og átti þ.a.l. engan pening og, surprise surprise, var líka ótrúlegur klaufi í kallamálum. Kommonn, hversu ömurlega djúpan klisjudrullupoll er hægt að sökkva ofan í? Ég gat ekki klárað þetta helvíti og ég vil fá 5 pundin mín til baka. Hver les svona gallsúran viðbjóð? Greinilega fullt af fólki þar sem þessi tuðra er búin að gefa út fullt af bókum í viðbót.
Vá ég notaði næstum því jafnmargar gæsalappir og gæsalappasjúki mbl.is-blaðamaðurinn.
---

Í dag fljúgum við systkinin á vit ævintýranna á Höfn í Hornafirði til að bjarga móður okkar frá sturlun. Hún er nefnilega svo einmana eftir að allir ungarnir stungu af til að fara í mennta- og háskóla í höfuðborginni. Hún hefur nú reyndar hundana til að hafa ofan af fyrir sér, en við vitum nú svosem öll að Vihtto er ekki skærasta peran í jólaseríunni og því lítið gagn í honum. Ég segi því bara góða helgi og bæti við því sem Snur myndi segja: Gerið allt sem ég myndi gera og gerið það vel.