Harmsögur ævi minnar

21.10.08

Ég er að spá í að setja dálk á hliðarsúluna sem er svona „Bókin sem ég er að lesa“ nema með einhverju meira hipp og kúl nafni auðvitað. Þennan dálk get ég svo notað eins og aðrir - sett inn fansí smansí bækur sem mig langar að lesa en nenni ekki af því að þær eru of erfiðar eða torlesnar. Svona eins og fólkið sem kemur í Mogganum með bækurnar á náttborðinu - þar er sko aldrei neinn að lesa Grisham, sei sei nei. En þetta hef ég áður röflað um svosem.

Aðalástæðan fyrir því að fólk gerir þetta er af sjálfsögðu sú að alla langar til að aðrir haldi að þeir séu ægilega intellektúal. Ég er engin undantekning og því ætla ég núna einmitt að fara að monta mig af því að ég les Joyce og svona. Nei, smá spaug bara. Ég lofa að setja inn allt sem ég les. Allt - líka þó það sé í rauðu seríunni. Ég er einmitt mjög spennt fyrir slíku því ég hef aldrei lesið neitt úr þeim gleðileik. Nú er ég hins vegar komin á þann aldur að það veitir ekki af því að kveikja aðeins upp í kulnuðum lendum mínum.