Harmsögur ævi minnar

27.8.09

Ég lufsaðist upp í matjurtagarð áðan ásamt nokkrum fjölskyldumeðlimum. Þar var náttúrulega flest myglað, ormétið og/eða arfakæft. Maður uppsker víst eins og maður sáir og verður að rækta garðinn sinn og svoleiðis. Hinir klöppuðu hver öðrum á öxlina og sögðu að þetti gengi bara betur næsta sumar. Ég á nú eftir að sjá okkur nenna þessu aftur.

Við eigum reyndar nóg af kartöflum, smá kál og hvað? Jú, auðvitað radísur. Hressandi. Ég tók með mér kál og kartöflur heim en nú liggur þetta í poka frammi í gangi. Ég andast af leiðindum bara af því að hugsa um að skola þetta og þurrka og troða í poka. Fyrst þyrfti ég þá líka að vaska upp sem ég nenni alls ekki. Sambó er í sturlaðri skóla- og vinnutörn fram í miðjan september. Er ég viðurstyggilegur maðkur ef ég geymi uppvaskið þangað til? Am I?! Svona hugsunarháttur er ekki mér að kenna og ég er ekki svona löt... fíngerðar og viðkvæmar hendur mínar eru bara ekki gerðar fyrir svona erfiðisvinnu og subberí, alveg satt. Það eina sem þær ættu að gera allan daginn er að halda á kampavínsglasi (önnur) og munnstykki með sígarettu (hin).