Harmsögur ævi minnar

21.4.03

Ég er búin að finna mér nýtt takmark í lífinu.

Þetta byrjaði allt með því að ég var að vaska upp, heyrði einhvern ógurlegan vélarnið og sé þessa líka hlussuhunangsflugu sveimandi í hárinu á mér. Ég sver það... kvikindið var á stærð við fótbolta og átti í mesta basli við að halda sér á lofti. Ég náttúrulega rauk út úr húsinu og rölti um vesturbæinn í klukkutíma því ég þorði ekki inn aftur fyrr en sambýlismaðurinn kæmi heim. Skepnan var reyndar komin í felur þegar við komum heim en fannst daginn eftir (enda erfitt að renna ekki á drunurnar í þessum dýrum) og var þá sparkað út snarlega.

Eftir að hafa skoðað myndir á Tilverunni datt mér svo snjallræði í hug. Til þess að losna við fóbíuna fæ ég mér auðvitað býfluguskegg. Af hverju ætti Tobbalicious að vera sá eini sem fær að vera með skegg? Neibb, ég maka hunangi framan í mig strax á morgun og býð þess að hlunkarnir setjist framan í mig.