Gleymdi að segja: Aldrei að fara að djamma í háum hælum nema maður sé viss um að fá leigubíl eftir djammið. Þegar ég, Tobbi og Dóra ætluðum að ná okkur í taxa aðfaranótt sunnudags var Lækjargatan troðin af nýstúdentabjánum sem þurftu að komast heim í úthverfin í leigubílunum sem við ætluðum að taka. Við neyddumst því til að labba alla leiðina til baka á Eggertsgötu og það var hreint ekki létt verk eftir allan dansinn. Ég endaði á því að fara úr skónum og netasokkabuxunum og ætlaði að labba heim á táslunum en herramaðurinn Þorvaldur tók það ekki í mál og heimtaði að ég færi í skóna hans (...og kann ég honum beztu þakkir fyrir). Ég labbaði semsagt heim berleggjuð í allt of stuttu pilsi og allt of stórum íþróttaskóm, Tobbi óð yfir blaut og gæsaskitin tún á sokkunum og greyið Dóra staulaðist um á hælunum sem stungust ofan í allt grasið sem við þurftum að labba yfir. Við hljótum að hafa verið ansi ömurleg sjón.
Svo verð ég að kvarta yfir þessari dagsbirtu þegar það á að heita nótt. Það er ekkert sorglegra en að mæta vel sveittur út af skemmtistað og komast að því að allir sjá hvað maður er ógeðslegur.
<< Home