Harmsögur ævi minnar

10.7.03

Hetjan Hafdís


Ég er (eins og einhverjir hafa kannski tekið eftir) ekki búin að vera í miklu bloggggstuði þessa dagana. Hins vegar gerðist atburður í dag sem ég sé mig knúna til að deila með ykkur. Ég veiddi nefnilega minn fyrsta geitung. Þetta er stórmerkilegt því ég er haldin ótrúlegri hræðslu við þessi ógeð.

Nú eru geitungar því miður orðnir daglegir gestir í búðinni minni og ég stend bak við afgreiðsluborðið stjörf af hræðslu og þori hvorki að hreyfa legg né lið.

En í dag ákvað ég: "Nei. Hingað og ekki lengra. Þú lætur þessar pöddur ekki stjórna lífi þínu lengur." Og það var eins og við manninn mælt; ég óð í eitt kvikindið í glugganum og eftir hörð slagsmál lagði ég skepnuna að velli með tilþrifum. Það skemmdi heldur ekki fyrir að hann var orðinn lúinn og þurrkaður í sólinni og hættur að geta flogið. Eiginlega hreyfði hann sig voða lítið; skreið svona aðeins fram og til baka. Og ég setti glas á hvolfi yfir hann. En það breytir engu - þetta var glæsilegur persónulegur sigur.

Og þið skuluð bara passa ykkur. Nú er ég fær í flestan sjó.