Harmsögur ævi minnar

19.6.03

Ég er landlaus aumingi. Ég var að reyna að ná í lækni í dag en hann var í sumarfríi svo símastúlkan benti mér vinsamlegast á að tala við heimilislækninn minn. Ég bara á engan heimilislækni! Ég var rekin frá hafnfirska heimilislækninum mínum þegar ég flutti til Reykjavíkur (alltaf svo beiskt þetta lið). Síðan þá hef ég bara ekki kennt mér meins og er þar af leiðandi einhvers staðar á reki í kerfinu. Sniff sniff.

Fara ekki skattarnir mínir (tjah... ég borga nú ekki mikla skatta en samt...) m.a. í það að halda uppi heilbrigðisþjónustu? Ég vil bara fá það sem ég borga fyrir! Hvað ef ég fæ slæma hálsbólgu eða eyrnaverk? Hvert á ég að fara? Þarf Tobbi að setja rör í eyrun á mér sjálfur? Og taka úr mér kirtlana með gaffli? Það er nú reyndar búið að taka úr mér bæði háls- og nefkirtlana en maður veit aldrei. Það er nefnilega búið að taka úr mér nefkirtlana tvisvar og aldrei að vita nema þeir séu að vaxa á fullu as we speak. Og þeir hlæja að mér. Helvítis nefkirtlar... þetta eru andstyggilegar skepnur.

Ég er dauðfegin að það er búið að taka botnlangann úr mér líka, þá sleppur Tobbi við það a.m.k. Nema hann sé vaxinn aftur. Þ.e.a.s. botnlanginn en ekki Tobbi. Ég er örugglega bara með svo fullkominn líkama að um leið og hann fattar að eitthvað er horfið býr hann til nýtt.

Ég er samt sem áður drullufúl að vera ekki með heimilislækni.