Harmsögur ævi minnar

5.6.03

Það eru margir klikkaðir sem koma í búðina mína. Laugavegurinn er náttúrulega mitt á milli Hlemms og Austurvallar og því gróðrarstía fyrir alls konar fyllibyttur og geðsjúklinga.

Til dæmis er einn sem kemur nokkuð oft og er bæði klikkaður og fyllibytta. Hann keypti fjarstýrðan bíl fyrir mörgum árum og hefur ekki látið búðina í friði síðan þá því hann heldur því fram að hann sé alltaf að fá gölluð hleðslubatterí. En þegar batteríin eru skoðuð sést greinilega að það hefur verið borað í þau með rafmagnsbor. Og hann þykist ekkert skilja í því. Eins hefur hann ásakað samstarfskonur mínar um að hafa hlaupið inn á lager og skipt á bílum, þ.e.a.s. látið hann hafa einn gallaðan í staðinn fyrir þann sem hann valdi. Jamm. Ég gat nú samt ekki annað en vorkennt honum þegar hann kom í fyrradag til að kvarta enn einu sinni yfir þessu, blindfullur og í náttslopp einum fata. Við þurftum að hringja í lögguna og höfum ekki séð hann síðan. Ég hef svo sem engar áhyggjur, hann á örugglega eftir að kíkja á okkur aftur...