Harmsögur ævi minnar

10.6.03

Hmmm...

Jæja, alltaf erfitt að koma sér í gang eftir langar helgar. Sjáum til hvort ég geti rifjað eitthvað upp.

Áætluð strandferð á sunnudeginum var blásin af sökum veðurs (eins og mig grunaði) og í staðinn var hópferð á Anger Management í Regnboganum. Það var skemmtilegt, samt skrýtið að fara í bíó í dagsbirtu sko.

Leit svo lengi út fyrir rólegt sunnudagskvöld. Guffi kom til okkar og við grilluðum svínakjöt og gæsabringur mmmm.... Svo kom Óli, seinna bættist Fridzy í hópinn og svo öllum að óvörum Gunna og Anton. Ætla ég ekki að fara út í nein smáatriði en varð úr þessum góða hóp eitthvað það svaðalegasta partý sem ég man eftir (ef frá eru taldar svallveislurnar hennar Fridzy á Barónsstígnum).

Það sem ég get sagt frá er að það var mikið húllað, mikið blásið af sápukúlum (fyrst úti til að klístra ekki gólfin en seinna um kvöldið var öllum orðið sama um það...) og mikið spilað. Þykir mér leitt frá því að segja að ég beið ósigur í Gettu Betur í enn eitt helvítis skiptið en ég og Fridzy bættum það upp með stórsigri í Partýspilinu sem er nú bara þrælskemmtilegt.

Var svo tekið til við að tvista á gríðarstóru dansgólfi Eggertsgötunnar og var ekki stoppað fyrr en farið var að líða yfir fólk. Við húsráðendur hófumst þá handa við að skola bjórdósir og ganga frá geisladiskum og hnigum í rúmið rétt fyrir sjö.

Einhvern tímann í vikunni stefni ég á að skúra gólfin því ég er alltaf að festast í bjór og ógeði.

En anyway, þið sem voruð á svæðinu; verið alltaf velkomin - það var geðveikt gaman!

P.s. Fridzy, Amaretto er nú svona líkjör til að nota í kökur og kaffi og svoleiðis, ekki til að drekka af stút...
P.p.s. Til hamingju með afmælið Guffi!!!