Harmsögur ævi minnar

11.6.03

Kemur ekki enn einn furðufuglinn í búðina í dag. Þessi var þó hvorki fyllibytta né alvarlega geðveik en gekk þó greinilega ekki heil til skógar. Konuræfillinn var að leita að bangsa handa nýfæddu barni og spurði mig trekk í trekk: "Finnst þér þessi ekki sætur?", "Hver finnst þér sætastur?", "Hvaða litur finnst þér sætastur?", "Hvort myndirðu velja þennan eða þennan?". Auk þess spurði hún mig hundrað og tuttugu sinnum hvort það mætti þvo bangsa í þvottavél.

Nú, ég er svo tilfinningagreind að ég áttaði mig strax á heldur klénu gáfnastigi konunnar og sýndi því mikla þolinmæði og kurteisi. Þó neyddist ég til að yfirgefa hana örstutt þar sem löng biðröð hafði myndast við kassann og fólk horfði á mig grimmdaraugum. Meðan ég var að afgreiða reiða fólkið tróðst bangsakonan fram fyrir með tvo mjög sæta bangsa í hendinni og spurði mig hvor mér þætti sætari. Ég bað hana vinsamlegast um að hinkra andartak þar sem ég væri upptekin. Leit ég svo upp skömmu síðar og komst að því að hún hafði sett bangsana á borðið og farið út. Sætt.

Vá hvað ég get ekki beðið eftir því að fara til útlanda.