Harmsögur ævi minnar

18.8.03

Jæja, átti heldur viðburðaríka helgi. Fór nefnilega út í rassgat (austurland, nánar tiltekið) með mömmu, ömmu og tveimur systkinum til að heimsækja langömmu mína og horfa á fjórða systkinið keppa í frjálsum íþróttum.

Nú, sumt var skemmtilegt og annað ekki, eins og t.d. það að sitja í þúsund klukkutíma í bíl með krökkum sem rífast stanslaust. Það tekur á taugarnar. Annars var ferðin ágæt; það var auðvitað æðislega skemmtilegt að hitta langömmu sem ég sé mjög sjaldan. Svo var líka gaman að komast að því að í hverju einasta krummaskuði á landinu er vínbúð. En í Vík í Mýrdal er hún bara opin frá 17 til 19. Kannski vinnur sami maður þar og á pósthúsinu eða eitthvað.

Svo hafa svona ferðir hræðileg áhrif á meltingarkerfið. Maður étur ársskammt af frönskum, pulsum og sveittum borgurum á allt of stuttum tíma. Mér er búið að líða geðveikt illa í mallanum. Það er eins og einhver hafi dýft öllum líffærunum á mér í orlídeig og djúpsteikt þau. Gott á mig fyrir græðgina. Vonandi hreinsast þetta úr þörmunum í vikunni. Efast samt um það. Það er kannski vissara að fá sér rauðvínsglas til að hreinsa aðeins úr kransæðunum.