Harmsögur ævi minnar

16.11.04

Dauði og djöfull... varð það á að leggjast aðeins upp í rúm seinni partinn (íklædd náttbuxum, þykkum flísnáttkjól, náttskyrtu, ullarpeysu, trefli, húfu, ullarsokkum og dúnskóm). Þar vafði ég mig fyrst í ullarteppi og svo rúllaði ég mig inn í dúnsængina og aaaahh, mikið asskoti var það notalegt. Ég leið inn í draumalandið og vaknaði ekki fyrr en löngu löngu seinna, og náttúrulega búið að loka öllum apótekum. Ég er þess vegna japlandi á einhverju flensulyfi sem Morten skildi eftir hérna, bara til að lina þjáningarnar aðeins. Þetta gerir mann soldið sljóan samt; ég er alltaf að slá inn vitlausa stafi í tölvuna. Kannski á maður ekkert að vera að éta einhver lyf bara. Enda stendur utan á: "Lesið vel meðfylgjandi leiðarvísi". En hann er náttúrulega löngu týndur. Vona að ég óverdósi ekki.

Vona að ég komist samt í leikfimi á morgun. Ekki af því að mig langi til að fara... ég er bara búin að borga fyrir mánuðinn og finnst blóðugt að nota það ekki.