Harmsögur ævi minnar

15.11.04

Skrýtið hvað maður breytist með aldrinum. Ég er t.d. farin að taka upp á því svona í seinni tíð að láta óreiðu fara afskaplega mikið í taugarnar á mér. Ég get ekki sest niður og lært nema ég sé búin að búa um rúmið, ganga frá öllum þvotti og fela alla lausa hluti inni í skápum (Og my god... skáparnir hjá mér eru troðfullir af drasli en það er allt í lagi af því að það sést ekki...). Og motturnar á gólfinu verða að vera samsíða línunum á flísunum. Þetta er undarlegt í ljósi þess að ég var algjör draslari frá fæðingu og langt fram eftir aldri. Herbergið mitt var alltaf ógeðslegt þegar ég bjó hjá foreldrum mínum... fatahaugar og skólaglósur út um allt. Oj oj oj.

Ég veit svosem ekki hvort þetta er breyting til hins betra. En hvað sem því líður getur verið erfitt fyrir svona sækó að búa með öðru fólki. Ég skiiiil ekki meðleigjendur mína stundum.

Ég: "Heyrðu, þú misstir tissjú á gólfið"
M(eðleigjandi): "Já, ok."
Ég: "Ætlarðu þá ekki að taka það upp og henda því í ruslið?"
M: "Jú jú, geri það á eftir."
Ég: "Af hverju á eftir? Af hverju gerirðu það ekki bara núna?"
M: "Ég bara nenni því ekki núna."
Ég: "Nennirðu því ekki núna??! Þú þarft að teygja þig 20 sentimentra!"
M: "Já, ég geri það á eftir."
Ég: "AF HVERJU???????? DRULLASTU BARA TIL ÞESS AÐ HENDA ÞESSU Í RUSLIÐ NÚNA - ÞÁ ER ÞAÐ BÚIÐ OG GERT!!!!"
M: "Dísös, þú ert nú bara eitthvað biluð."

Þess má geta að þetta á líka við um uppvask, þrif, tæmingu á rusli, skiptingu á klósettrúllum og ýmislegt fleira. Og það má bæta því við líka að verkefnið sem átti að vinna "á eftir" er yfirleitt ennþá óklárað daginn eftir. Ég gæti öskrað. Það er kannski eins gott að það stefnir í það að ég eignist ekki börn. Veit svei mér þá ekki hvort ég hefði nokkra þolinmæði í það.