Harmsögur ævi minnar

15.3.06

Það er gaman að hrósa og gaman að fá hrós (þó ekki kunni maður alltaf að taka því). Því er nú ekki beinlínis ausið yfir mig en þó man ég eftir tveimur atvikum síðustu mánuðina:

Ég sest upp í bíl hjá Völundi til að fara á pöbbkviss, búin að mála mig aðeins í tilefni föstudagskvölds. Völundur segir: "Bíddu... hvert þykist þú vera að fara? Af hverju ertu svona uppstríluð?"

Jólaboð hjá ömmu. Faðir minn segir í óspurðum fréttum: "Deeza, þú ert óvenju lítið feit núna. Hvernig stendur á því?"

Já, það er gott að eiga góða að.