Harmsögur ævi minnar

25.3.06

Það var nú á stefnuskránni að skrifa ítölskuritgerðina í dag. Ég held ég sé búin að skrifa 10 línur. En í staðinn er ég búin að fá skemmtilegt fólk í kaffi og gúggla fullt af forvitnilegu dóti. Það er nú merkilegt þetta svokallaða alnet.

Svo horfði ég á Sufjan Stevens myndbönd og viðtöl í marga klukkutíma. Ég er svo ástfangin af honum að ég get hvorki borðað né sofið. Nei, það er lygi, ég get bæði borðað og sofið. En ég er samt ástfangin. Ég hef reyndar aðeins áhyggjur af því að þessi ást er sannarlega óendurgoldin og verður það væntanlega áfram. Það er auðvitað bömmer. En ef ég fæ hann ekki kýs ég að deyja alein og yfirgefin í hárri elli, gríðarlega bitur út í lífið og tilveruna. Ég hata ástina.

Svo var Glókollur að hvetja mig til að skrá mig á my space. Það er víst móðins og enginn maður með mönnum nema hann eigi þar síðu. Ég held að Glókollur vilji fá mig þangað af því að hann á enga my space vini og verður að fá fjölskylduna til að skrá sig. Algjör lúser. Til hvers er þetta annars?

Og eitt að lokum: Ég get af einhverjum ástæðum ekki kommentað á blog.central síður lengur. Þannig að blog.centralar - ekki verða fúlir þó ég kommenti aldrei, ég er samt að lesa.