Harmsögur ævi minnar

10.10.06

Ég læt gagnrýnisraddir um verð hjólsins míns sem vind um eyru þjóta, enda er þetta prýðishjól og fagurblátt í ofanálag. Nú þýt ég um stræti Cambridge eins og ég hafi aldrei gert annað, alltaf með varúð þó, minnug reiðhjólaslyssins hræðilega sem ég lenti í '98 í undirgöngum í Breiðholti. Þá klessti ég á annan hjólreiðagarp á u.þ.b. 0,03 km hraða og þó ég hafi nú ekki slasast mikið (enda með hjálm), þá var það afskaplega neyðarleg lífsreynsla.

Annars gengur allt vel, skólinn skemmtilegur og þvíumlíkt. Ég sakna hjásvæfunnar ennþá en hef þó komist að því að þetta fyrirkomulag hefur líka nokkra kosti í för með sér. Til dæmis er ég ekki búin að raka á mér lappirnar í heillangan tíma og er dauðfegin að vera laus við það basl.

Ég kíkti á flug heim um jólin og eins og vanalega er það bölvaður hausverkur... á maður að panta strax til að fá lægra verð og taka sénsinn á að það komi tilboð seinna? Svo var móðir mín að segja að Ryanair væri kannski að fara að fljúga til Íslands. Ái hjálpi mér, hvað á ég að gera? Ég get heldur ekkert ákveðið mig hvenær ég vil fljúga út aftur. Helst myndi ég vilja koma heim föstudaginn 15. og mæta á pöbbkviss og rugl. Getur einhver tekið að sér að sjá um praktísku hlið lífs míns svo ég geti einbeitt mér að akademískum ferli og bjór? Anyone?

Svo vil ég fara að fá upplýsingar um hvað við ætlum að gera á gamlárskvöld svo ég geti farið að velja mér klæðnað.