Harmsögur ævi minnar

19.10.06

Það hlaut að koma að því... ég missti snyrtibudduna mína með öllu málningardótinu mínu ofan í klósettið. Ég hef sérlega gaman að því að missa drasl ofan í klósettið. Það var nú svosem ekkert ofan í klóinu svo ég skolaði bara af draslinu og nota ennþá, enda snyrtivörur rándýrar. Ég vona bara að ég fái ekki ekólísýkingu í augun eða eitthvað. Og þó, ætli maður væri ekki búinn að ná sér í einhvern ófögnuð nú þegar ef það ætti fyrir manni að liggja. Það er svo viðbjóðslega drullugt í þessu húsi sem ég bý í að það er með ólíkindum. En á misjöfnu þrífast börnin best og ég er sennilega komin með sterkasta ónæmiskerfi norðan Alpafjalla. Við kakkalakkarnir munum saman lifa af kjarnorkuvetur og ég mun stjórna heiminum.