Ég var í netsambandi áðan við samnemendur mína, það þurfti nefnilega að ákveða stað til að drekkja sorgum sínum á næstkomandi föstudag kl. 12:01. Flestir virðast vera með brækurnar á hælunum í sambandi við þessar ritgerðir... ljótt að segja það en: HAHAHAHAHA!!!
-
Áðan fann ég í ávaxtaskálinni minni minnsta vínber sem ég hef á ævinni séð. Það er miklu minna en krækiber. Þetta gladdi mig mjög mikið því ég er svo hrifin af hlutum sem eru minni en þeir eiga að vera. Tek kannski mynd við tækifæri.
-
Ég er að verða öryrki af skólagöngu. Mér er orðið svo illt í olnboganum (sennilega af því ég sef svo mikið með höndina undir hökunni á mér) að ég get ekki snert neitt án þess að emja af sársauka. Nú pikka ég bara með vinstri og læt hægri hendina standa beint upp í loftið. Það er smart.
-
Ég gæti drepið, DREPIÐ SEGI ÉG, manneskjuna sem býr með mér sem á sturtugel með piparmyntulykt. Djöfull hef ég oft verið nálægt því að æla þegar ég strunsa grunlaus inn á baðherbergi á morgnana og fæ þessa stybbu beint í andlitið. Hvers vegna kaupir fólk sér ekki bara sturtugel með kúkafýlu? Nú, eða kattahlandslykt? Andskotans óeðli bara. Mér er skapi næst að reykja inni í húsinu til að hefna mín. Enn sem stendur gengur sökudólgurinn huldu höfði, en ég mun komast að því hver ber ábyrgðina. Ég er líka orðin alveg ekta sækó núna, með risabauga, hárið út í loftið og Maltesers leifar í flíspeysunni. Alveg eins og svona klikkuð spæjarakona.
<< Home