Harmsögur ævi minnar

12.8.07

Yndislegur dagur. Fór í óvissuferð upp á Þingvelli með hjásvæfu, móður, systur og hundspottinu. Við löbbuðum af okkur lappirnar og átum samlokur með hangikjöti og salati og kex og möffins. Svo héldum við dýrindis grillveislu þegar heim var komið og tróðum í okkur kjúklingi, lambakjöti, beikonvöfðum skötusel og meðlæti. Ég er búin að borða svo mikið síðustu vikur að það nær ekki nokkurri átt. Allar buxur þröngar... en það er bara krúttlegt. Er það ekki annars? Ekki?

Svo er bara ljúft að vera í fríi. Móðir mín nuddarinn er búin að reyna að merja úr mér skólavöðvabólguna með alls konar fantabrögðum, ilmolíum og kristöllum. Ég er samt ennþá öll í keng og skakklappast milli herbergja eins og hringjarinn í Notre Dame.

Eeeen nóg af tölvuhangsi... ég þarf að setjast út á svalir með rauðvínsglasið mitt og slappa aðeins af eftir átið. Ef lífið gæti bara verið svona það sem eftir er... dæææs.