Líf án samviskubits er að venjast alveg ágætlega. Ég þarf reyndar að fara að henda saman ferilsskrá og sækja um störf og svoleiðis en það má alveg bíða í nokkra daga.
Við fórum nokkur úr skólanum (þær fáu hræður sem eru eftir) í garðpartý hjá Clare College í gær. Það endaði í Tapas, partýi hjá Tom og svo dansi langt fram eftir nóttu. Ég var með stærsta blóm í heimi í hausnum (það var stærra en hausinn á mér, og þó er hausinn á mér nú engin smásmíði!) og bindi yfir hettupeysuna mína... guð má vita af hverju. Það gerist alltaf eitthvað undarlegt heima hjá Tom. Síðast var ég að dandalast í garðinum hans í alltof stórum frottéslopp þegar risastór brauðhnífur datt úr vasanum á mér.
Annars er pabbi að koma á morgun... best að koma sér í leiðsögumannagír.
<< Home