Það ríkir mikið hörmungarástand á heimilinu. Ég er alltaf að vinna og hjásvæfan í prófum. Í gær fengum við nóg og tókum express-jólabúning. Hann fólst í því að henda aðventuljósi í gluggann og sparka stærstu rykhnoðrunum inn í geymslu. Hjásvæfan komst reyndar í jólakassann og var við það að lufsa einhverjum mega-takkí glimmerborðum á bókahilluna. Það var kæft í fæðingu.
Það minnti mig reyndar á jól fyrir nokkrum árum síðan. Þá var ég líka alltaf að vinna en eitt kvöldið þegar ég kom heim voru fyrrverandi og Völundur búnir að skreyta íbúðina hátt og lágt... og þá meina ég hátt og lágt. Það var eins og jólasveinninn hefði fengið þynnkuskitu þarna inni. Hins vegar er það hugurinn sem skiptir máli og mér þótti afskaplega vænt um það að þeir skyldu hafa lagt þetta á sig. Ég man svo ekki betur en að við höfum átt afskaplega gleðileg og indæl jól innan um allt glimmerið og slaufurnar.
<< Home