Ég er komin með nýja klippingu og glænýjan platínuljósan lit. Það er þó greinilegt að hégóminn er farinn að taka sinn toll. Yfirleitt er ég ekkert viðkvæm fyrir neinum efnum og svoleiðis en í dag þegar hárdúddi setti aflitunarefnið í mig var eins og logar helvítis hefðu kviknað á höfðinu á mér. Þetta harkaði ég náttúrulega af mér en oj hvað það var vont. Mér sýnist ég líka vera öll rauð og sviðin í hársverðinum en ætla ekkert að skoða það frekar. Það leiðir hugann einungis að því að ég gæti einhvern tímann þurft að hætta að lita á mér hárið og ég get satt best að segja ekki hugsað þá hugsun til enda. Klippingin er stutt og flott; ekki drengjakollur en næstum því. Ég hef ekki verið með svona stutt hár síðan ég var sex ára og mamma lét einhverja illgjarna hárgreiðslukonu klippa í mig viðurstyggilegt sítt að aftan. „Business up front, party in the back“ er náttúrulega draumur hverrar sex ára stúlku, það segir sig sjálft. Mamma afsakaði sig alltaf með því að hárið á mér hefði verið svo þunnt og því ekkert hægt að láta það vaxa. Það var að sjálfsögðu rétt hjá henni en ég varð svo hvekkt eftir þessa lífsreynslu að nánast alla tíð síðan hef ég verið með næfurþunnar lýjurnar lengst niður á bak. En ég held að ég sé loksins að jafna mig á þessu öllu saman. Loksins.
<< Home