Naujnauj, það er aldeilis að maður bloggar loksins þegar maður kemur sér í það. Eina ástæðan fyrir því að ég nenni því núna er reyndar sú að ég sit með tölvuna í fanginu og er að bíða eftir því að sjöundi þáttur af Damages hlaðist upp í Megavideo. Og þar að auki er ég búin að skoða allt sem ég nenni að skoða á hinu svokallaða alneti.
Ég ætti kannski að nota tækifærið og athuga hvort einhver eigi saumavél til að lána mér. Ég þarf nefnilega að sauma tennisbolta í nátttreyjuna hans Sambós. Eða öllu heldur undir bakhúðina á honum þar sem hann sefur ekki í náttfötum. Hann er farinn að færa sig allsvakalega upp á skaftið með þessi næturöndunarhljóð og ég gjörsamlega þoli það ekki. Yfirleitt er þetta slæmt, svo slæmt að ég held stundum að hann sé að kafna. Núna er hann ógeðslega kvefaður í ofanálag og herra minn, það er ekki gaman. Það er auðvitað leiðinlegt að kafna og allt það en fyrir utan það þá verð ég náttúrulega að fá minn nætursvefn. Maður er nú orðinn þrjátíu og tveggja og má ekki við svona löguðu. Mér finnst ég eyða alltof miklum tíma í að reka hann á hliðina... sem snýr frá mér auðvitað. Ég þoli ekki að láta anda á mig. En ég held að tennisboltarnir séu alveg málið, þá getur hann ekki legið á bakinu.
<< Home