Harmsögur ævi minnar

20.10.09

Alltaf er maður að passa sig á flensu... ég er t.d. mjög dugleg að þvo mér um hendurnar og er ekkert að vasast ofan í fólki að óþörfu. Á flensuvarnarplakötunum sem hanga uppi í vinnunni er fólki líka bent á að hósta hvorki né hnerra framan í aðra. Hnuff, hugsaði ég, hvaða rumpulýður hóstar og hnerrar framan í aðra?! Lítið vissi ég þá.

Í gær var ég með fjögurra ára næturgest. Í morgun vorum við frænkurnar að finna okkur til fyrir vinnu/leikskóla og litla þurfti að pissa eins og gengur og gerist. Þegar ég var að girða upp um hana, kraup ég þannig að ég var í augnhæð við barnið og andlitið á mér svona fimm sentímetrum frá hennar. Hvað gerir litla dýrið þá? Jú, hnerrar auðvitað af öllum lífs og sálar kröftum, með frussi og öllu. Hún hnerraði sem sagt ekki á mig, hún hnerraði upp í mig. Skelfingarsvipurinn á mér hlýtur að hafa verið óborganlegur. Og hvað gerir maður eftir svona miskunnarlausa sýklaárás? Þvær sér um hendurnar? Niii, ætli það þýði nokkuð. Ef hún er með eitthvað þá er ég svo sannarlega komin með það líka.