Harmsögur ævi minnar

15.10.09

Ég er að sturlast úr taugaveiklun í öllu þessu flensutali. Ég er svo sem ekkert hræddari við að fá svínaflensu en aðra flensur... mig langar bara ekkert að fá neina flensu, bara alls ekki. Fyrir þessu eru aðallega þrjár ástæður:

1. Það er ógeð að fá flensu. Flensa er ekkert svona æi ég er dáldið slöpp, best að vera heima og horfa á vídeó-dæmi. Nei takk kærlega. Síðast þegar ég fékk flensu, og það eru nú ekki nema tvö og hálft ár síðan, lá ég svoleiðis nötrandi og skjálfandi úr bein-, haus- og allskonar verkjum, með sjúklegan hita og svo veik að ég komst varla á klósettið. Öll hljóð og ljós (þ.m.t. dagsbirta) var alveg off, og vídeógláp ekki einu sinni til að tala um. Þetta var líka sérstaklega nöturleg lífsreynsla vegna þess að ég bjó í útlöndum og hafði hvorki kærasta né foreldra til að vorkenna mér og búa til veikite með engifer og svoleiðis. Og ég var rúmliggjandi í andskotans tvær vikur. Þvílíkur viðbjóður.

2. Það er mikið að gera í vinnunni minni. Mér þykir vinnan mín skemmtileg en henni fylgir sá galli varðandi mörg verkefni að ef ég geri ekki það sem ég á að gera er enginn annar sem gerir það. Það bíður því yfirleitt haugur af vinnu þegar maður snýr aftur. Ég hef verið heima veik en þá var ég að kúka í buxurnar af stressi yfir því að allt færi í köku. Hvorki hressandi né afslappandi.

3. Ég er að fara á Airwaves. Og ég hlakka geðveikt til og ég verð hryllilega súr ef ég verð svo bara veik í staðinn.

Núna finnst mér eiginlega eins og ég sé að verða lasin. Samt er ég búin að vera ótrúlega varkár... held t.d. alltaf niðri í mér andanum ef fólk kemur nálægt mér og þvæ mér um hendurnar á tíu mínútna fresti. Djöfull vona ég að þetta sé ímyndun í mér.