Harmsögur ævi minnar

24.11.09

Ég var að dandalast uppi í aðalbyggingu HÍ seinni partinn í gær. Þar var doktorsvörn sem ég var eitthvað að stússast í. Innifalið í því stússi var að vígja nýtt herbergi í aðalbyggingunni sem nú er hægt að nota bæði fyrir varnir (í ýmiss konar undirbúning) og eftir (í hamingjuóskir og freyðivínssopa). Inni í þessu huggulega herbergi er forláta upplýstur glerskápur. Inni í skápnum eru alls konar merkileg plögg; gömul doktorsskírteini, myndir og annað slíkt. Þegar allir voru farnir í gær gekk ég frá eftir mannskapinn. Ég gat ómögulega fundið rofann til þess að slökkva á skápnum svo ég yfirgaf svæðið án þess að slökkva, hugsandi með mér að umsjónarmaður hússins hlyti að kíkja inn í stofurnar áður en öllu yrði læst. Þegar leið á kvöldið fór ég þó að efast og þegar upp í rúm var komið gat ég ómögulega sofnað. Hvað ef það kviknaði í? Ekki bara hafði ég áhyggjur af því að þau ómetanlegu menningarverðmæti sem er að finna í skápnum myndu eyðileggjast heldur var ég orðin handviss um það að Aðalbyggingin sjálf myndi brenna til kaldra kola og allt mér að kenna. Það var því ekkert annað í stöðunni um þrjúleytið (ennþá svefnlaus) að drífa sig í kuldagallann og upp í skóla til að vakta. Þannig að ef þið áttuð erindi framhjá Aðalbyggingunni í nótt og sáuð grunsamlega þúst fyrir utan, hafið þá ekki áhyggjur. Þetta var bara ég að passa að það kviknaði ekki í. Og mikið sem ég stóð mig vel - það kviknaði sko ekki í neinu.