Harmsögur ævi minnar

2.3.11

Ég keypti þráðlausa fjarstýringu á tölvuna um daginn og get nú spilað Super Mario Bros 1, 2 og 3 í fartölvunni eins og ég eigi lífið að leysa. Mikið er það skemmtilegt... en ekki var nú grafíkin upp á marga fiska. Sá nýjasti, sem sagt í 3, er líklega þessi frá 1990 á myndinni.


Ég get spilað þessar útgáfur og svo Super Marioworld (a.k.a. Super Mario Bros 4). Super Marioworld var reyndar fyrir Super Nintendo-tölvurnar (Super Nintendo Entertainment System - SNES) en ekki gömlu NES-tölvurnar (Nintendo Entertainment System). Við áttum aldrei NES-tölvu. Það olli mér ómældum leiðindum þegar ég var krakki því Nintendo var best í heimi og það var geggjað fúlt að þurfa alltaf að troða sér í heimsókn til að fá að spila. Sem betur fer fjárfestu foreldrar bestu vinkonu minnar í svona eðalgræju á endanum. Foreldrar mínir keyptu svo SNES-tölvu sem bætti stuðið talsvert... reyndar var ég örugglega orðin svona 15 ára en lét það nú ekki stoppa mig, sei sei nei.

Næsta tölva var Nintendo 64 held ég alveg örugglega. Það átti reyndar enginn þannig sem ég þekkti en ég prófaði Super Mario 64 á vídeóleigunni sem ég var að vinna á og ó boj. Mario var allt í einu kominn í asnalega þrívídd og gat ekki bara hlaupið til vinstri og hægri, heldur líka á ská og allskonar. Ég hljóp hundrað sinnum fram af einhverri brú og fékk helvítið hreinlega ekki til að hlýða. Þarna vissi ég að þetta væri búið spil hjá mér og að Super Marioworld væri líklegast þróaðasti Mario-leikurinn sem ég kæmi til með að spila. En það er líka bara allt í lagi.