Harmsögur ævi minnar

17.11.04

Vaknaði í morgun alveg útsofin og fín, og ekkert smá ánægð að vera farin á lappir snemma og getað byrjað að læra. Nei nei, þá var klukkan hálf eitt. Ég skildi ekkert í þessu, en komst svo að leyndardómnum. Það kom nefnilega viðgerðarmaður til mín í fyrradag og lagaði gluggaþekjuna (veit ekki hvað þetta heitir... svona eins og stór utanáliggjandi rúllugardína úr viðarlengjum (??)) þannig að nú lokar hún alveg fyrir gluggann hjá mér. Það var semsagt algjört kolniðamyrkur inni í herberginu mínu og ég búin að vera steinrotuð í 10 tíma. Ég þurfti að nota ljósið á gemsanum bara til að finna inniskóna mína. Dró frá og jú jú - þetta líka fína sólskin. Varð nú hálf fúl af þessu öllu saman, fór á klóið og mér til mikillar ánægju var tóm klósettrúlla á vaskinum. Opna ég þá ruslið til að henda henni og TA-TA; notaður túrtappi. Góð byrjun á degi.

Til allrar hamingju fann ég stórt Milka súkkulaðistykki með hnetum inni í skáp... ég hef greinilega ætlað að fela það frá sjálfri mér, en tókst ekki betur en þetta múhahaha. Það hvarf auðveldlega ofan í kokið á mér og ég er ekki frá því að ég sé í aðeins betra skapi núna.

Fór ekki í leikfimi.