Harmsögur ævi minnar

21.2.05

Heyrðu nú mig... ég var aldeilis göbbuð í gær. Var búin að lofa að spila Risk við meðleigjandann. Ég fór inn í eldhús og var að sæka mig upp, spilið tilbúið og allt. Þá tók ég eftir því að þetta var ekkert Risk! Þetta var nefnilega Axis & Allies, sem þarf doktorsgráðu til að skilja. Þetta var ansi mikið sjokk en þar sem meðleigjandinn gaf sig ekki neyddist ég til að spila.

Og það var spilað í 10 tíma. Fór í rúmið kl. 4 í nótt. Með spilinu var drukkinn bjór, reykt of mikið, borðað með diskinn í annarri hendi og teningana í hinni... baunir með tómatsósu mmmm.... (Reyndar kom gat á plastdiskinn minn (I know - plebbar) og ég makaði árásarspjald Sovétríkjanna út í tómatsósu við lítinn fögnuð spilseiganda.)

Ég reyndar fékk ekki doktorsgráðu en a.m.k. BA próf þar sem hernaðarkænsku minni fór fram með hverri umferð og lauk að lokum með glæstum sigri Þýskalands og Japans í seinni heimstyrjöldinni. Kannski ekki alfarið mér að þakka þar sem ég byrjaði með bandamenn en tókst alls staðar að koma þeim í vonlausa stöðu. Svo við skiptum á liðum og ég tók við öxulveldunum sem voru náttúrulega blómstrandi sökum heimsku minnar í upphafi. En sigur er svosem sigur.

Nú get ég ekki beðið eftir að spila aftur. Þarf að kaupa meiri bjór og snakk og svona. Ég vona að þetta eigi ekki eftir að koma niður á náminu hjá mér.