Var að ryksuga áðan með gömlu ryksugunni hennar Ritu... það er ógeðsleg lykt af loftinu sem kemur úr pokanum; svona kjötlykt einhver. Kannski ryksugaði hún hundinn.
Hún fékk annars ryksugusölumann í heimsókn um daginn... kom meira að segja með hann yfir til okkar. Hann reyndi að hræða úr okkur líftóruna með háskasögum af rykmaurum sem sitja víst í öllu. Sonur hans var víst nærri dáinn úr rykmauraofnæmi þangað til þau byrjuðu að ryksuga dýnuna hans með þessari ofur-ryksugu. Þetta minnti mig nú bara á söguna sem Dóra frænka sagði mér um e-ð rykmaurapróf sem var framkvæmt heima á Íslandi. Það voru tekin sýni úr 300 rúmum og fundust hvorki meira né minna en 2 rykmaurar; þar af annar stórlega fatlaður og útlimalaus. Það getur varla verið svo hættulegt.
Við létum sölumanninn samt ryksuga rúmið hans Subba (sem var ekki heima). Hann er nefnilega subbulegur og með exem og þurra húð svo það veitti ekki af að renna yfir dýnuna. Við litum nú frekar á það þannig að við værum að bjarga rykmaurunum frá Subba en ekki öfugt. Skelfilegt með þessi grey sem geta ekki borið fálmara fyrir höfuð sér (tala nú ekki um ef þeir eru útlimalausir). Maður á alltaf að vera góður við dýrin.
Spurning um að ættleiða rykmaur? Ég myndi frekar ættleiða rykmaur en hval.
<< Home