Harmsögur ævi minnar

28.2.05

Úff... búin að hafa voða lítinn tíma...

Ekkert mikið í gangi, bara að reyna að læra og læra og læra... Anna meðleigjanda átti afmæli á föstudaginn og við héldum rosa matarboð hjá Ritu. Þessi helgi er bara búin að vera stanslaust át og smá Axis & Allies.

Svo horfði ég á þátt í sjónvarpinu um daginn um Scampia, sem er ógeðslegt gettó-úthverfi í Napólí. Æsufellið er eins og huggulegasta parhús í Garðabæ miðað við himinháu steinkumbaldana sem fólkið býr í þarna. Camorran (mafían í Napólí) ræður ríkjum í hverfinu og fjármagnar starfsemi sína með dópsölu og ránum. Í fyrra var framið morð að meðaltali 6 daga vikunnar (í öllum útgáfum, t.d. mjög vinsælt að afhöfða líkin og brenna þau inni í bílum) og í görðunum í kringum blokkirnar ráfar fólk um með heróínsprauturnar hangandi úr handleggjunum.

Það voru lesnar ritgerðir skrifaðar af krakkaræflunum sem búa þarna. Þau skrifuðu meðal annars:

-Ég vildi að við gætum spilað fótbolta úti í garði en við megum ekki fara þangað því það er allt fullt af dópistum. Ég segi aldrei neinum hvar ég á heima því ég skammast mín.

-Ég vildi að mamma mín þyrfti ekki að selja krakk til að við getum borðað en hún fær enga aðra vinnu.

-Ég er alltaf hræddur og ég þori eiginlega ekki að fara út. Pabbi minn var myrtur af Camorrunni fyrir 2 árum fyrir framan mig og bróður minn.

Þetta var þvílík eymd að ég trúði ekki mínum eigin augum... það á enginn að þurfa að búa við svona viðbjóð. Það er nokkuð ljóst að ef ég eignast einhvern tímann börn þá kaupi ég mér hús uppi í sveit heima á Íslandi. Og fæ mér hund og kanínur.