Harmsögur ævi minnar

27.2.06

Ömurlegur dagur. Kvíði dauðans yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Var að reyna að læra fyrir próf en lenti í flótta-kóma. Sofnaði semsagt yfir bókunum og gat ekki rifið mig upp aftur þrátt fyrir að ég væri meðvituð um að ég væri sofandi og ætti að vakna. Tókst að opna augun nokkrum sinnum en gat ekki hreyft mig og sveif aftur í draumalandið.

Í draumunum tókst mér alltaf að finna friðsæla og fallega staði þar sem ég gat sest og horft á ströndina, börn að leik eða fallegan skógarlæk. En eftir smástund kom alltaf einhver kennari eða ritgerðarleiðbeinandi, settist við hliðina á mér og byrjaði að nöldra í mér yfir skólanum. Þeir eyðilögðu allt.

Og það versta er að ég fékk ekki einu sinni bollu. Það voru meiri helvítis vonbrigðin, ég er nú eiginlega búin að vera með tárin í augunum síðan seinni partinn yfir því að enginn skyldi hafa hugsað til mín. Völundur sagði að ég gæti keypt bollur á útsölu í bakaríunum á morgun. Ætli ég geri það ekki. Samt ekki alveg það sama.

Einhver færir Deezu ferska bollu á bolludag með ást og kærleik í hjarta og bætir við faðmlagi í eftirrétt = gott.

Deeza kaupir sjálf bollu á útsölu daginn eftir og gúffar henni í sig ein heima í skítugu skúmaskoti, sveitt og feit á blettóttum nærbol= ekki alveg jafn frábært.