Harmsögur ævi minnar

29.4.06

Móðir mín, framhaldsskólastúlkan, er búin að kynnast fullt af einhverjum nýaldarvírdóum uppi í Ármúla sem sveifla kristöllum og stunda heilun hægri vinstri. Frá einhverjum kuklaranum áskotnaðist henni galdrapendúll sem gefur víst svör við öllum andskotanum. Henni þótti því tilvalið að spurja hann hvaða skóla ég ætti að velja. Nú, pendúllinn sagði víst Edinborg alveg skýrt og greinilega. Ég átti samt að prófa svo þetta væri alveg 100% öruggt.

Nema það gerðist ekki rassgat í bala þegar ég prófaði. Mamma sagði að ég væri bara ekki nógu opin fyrir þessu og að ég leyfði ekki orkunni að streyma óhindrað frá líkamanum. "Þú ert efasemdapúki Deeza" sagði hún. Ég sagði henni að þetta væri af því að ég er algjörlega árulaus og hrein illska inn að beini í ofanálag. Þá tróð hún pendúlnum í vasann á mér og sagði mér að prófa aftur heima þegar ég væri alveg afslöppuð og laus við utanaðkomandi áreiti. Ég tók nú helvítið með mér heim... hef samt ekki lagt í að endurtaka leikinn. Ég er hálfhrædd við svona svartagaldur.

Annars er ég nú ekkert viss um þennan félagsskap sem móðir mín er í þarna. Eru menntaskólakrakkar alveg hættir að reykja hass og hlusta á þungarokk?