Það er naumast að maður hefur mikið að gera. Ég veit vart hvar skal byrja, svei mér þá. Útskriftin var á laugardag (og þakka ég kærlega fyrir hamingjuóskirnar fyrir neðan). Fínn dagur, nema athöfnin var löng og ég náði auðvitað að vinna upp ágætis kvíða áður en röðin kom að hugvísindadeild. Þegar við fórum í einfalda röð til þess að stíga á svið var ég orðin viss um að kjóllinn minn (sem var bundinn) myndi opnast og ég yrði allsber á sviðinu, ég myndi hrasa á hælaskónum, taka skírteinið með vitlausri hendi (ef það væri þá eitthvað skírteini handa mér), og gleyma að taka í höndina á rektor. Svo er klappað ef maður er með ágætiseinkunn (og ég rétt skreið upp í hana) og það var alveg túmötsj fyrir mig. Ég skalf svo mikið í röðinni að ég hélt í alvöru að lappirnar myndu brotna í tvennt.
Svo gekk þetta bara ágætlega, ég fór bara á sjálfvirka stillingu og rankaði eiginlega bara við mér á leiðinni til baka í sætið. Mamma og pabbi sögðu að ég hefði tekið mig vel út og meira að segja haldið maganum inni, þannig að það er gott að vita að undirmeðvitundin tekur völdin þegar mikið liggur við. Ég var samt svo viðbjóðslega sveitt í lófunum að skírteinið mitt er allt beyglað. En miðað við aðstæður var það vel sloppið. Það er alveg fáránlegt að vera svona bældur.
<< Home